Tapasbarinn

Tapasbarinn í Hlaðvarpanum er fyrir löngu búinn að festa sig í sessi sem einn af vinsælustu veitingastöðunum í Reykjavík. Það er yfirleitt mikið að gera og gjarnan fullt út úr dyrum. Tapasmenningin spænska sem byggir á smáréttum sem gjarnan eru borðaðir við barborðið virðist eiga vel við Íslendinga. Stemmningin á Tapasbarnum er líka ansi suðræn, það er matarlykt í loftinu, angan af hvítlauk og grilluðum fisk og kjöti, líf og fjör á flestum borðum.

Það er vissulega hægt að sitja við barborðið á Tapasbarnum og fá sér tapas og glas af þurru fino en flestir gestir sitja við borð eða bása. Staðurinn leynir á sér og það komast ansi margir fyrir.

Þrátt fyrir suðræna stemmninguna eru tapas-réttirnir ekki hreinræktað spænskir, heldur einskonar blanda af íslenskum, spænskum og jafnvel ítölskum áhrifum. Úrvalið er mikið, skelfiskur, saltfiskur og rammíslenskt hráefni á borð við lunda og hrefnu, sem líklega finnst ekki á einum einasta tapasbar á Spáni, eða utan Íslands þess vegna. Líklega er þetta líka eini staðurinn í Reykjavík – eða heiminum – þar sem Sangría virkar jafnsjálfsögð og staup af ísköldu íslensku brennivíni.

Það fyrsta sem kemur á borðið er ágætis brauð með hummus og bragðmiklu og fínu ólívumauki – tapenade. Saltfiskurinn er fínn, fín og þykk stykki, vel útvötnuð og elduð. Vorum á báðum áttum hvor tapas-rétturinn væri betri, saltfiskurinn með maukuðum sætum kartöflum eða stökkri chorizo-pylsu og mildu döðlumauki. Serrano-skinka var góð með rifnum Manchego og ólívuolíu. Sömuleiðis bakaðir, sjóðheitir og sætir tómatar með basilsósu (pestó). Lambalundir komu með sýrumikilli og ágætri plómusósu, kjötið gott en hefði mátt krydda aðeins. Nautalundir meyrar og létteldaðar með …. pestó. Fínasta kjöt, en einn bitann hefði mátt sinuhreinsa betur. Einn klassískasti tapas-réttur Spánar eru Patatas Bravas, hinar voguðu kartöflur. Þarna voru þær sterkkryddaðri en ég hef fengið þær á Spáni og maður saknaði svolítið sósunnar með, en yfirleitt er það hún sem gefur hitann í réttinn. Að lokum sambland af eftirréttum þar sem meðal annars var virkilega gott crema catalana (creme brulée) og ágætis súkkulaðikaka og skyrturn með hvítu súkkulaði.

Þrátt fyrir að yfirleitt sé mjög mikið að gera gengur þjónustan hratt og örugglega fyrir sig. Það mættu margir staðir í Reykjavík, þar sem ösin er minni, taka sér skipulagið og skilvirknina á Tapasbarnum til fyrirmyndar. Og þótt starfsfólkið sé á stöðugum hlaupum er viðmótið óstressað gagnvart viðskiptavininum.

Það verður að segjast eins og er að Tapasbarnum hefur tekist afskaplega vel að íslenska spænska tapas-konseptið. Stemmningin og umgjörðin á að vera óformleg og einföld. Þetta er ekki staður fyrir brúðkaupsafmæli eða formlegan viðskiptakvöldverð heldur staður til að fara í góðum félagsskap og eiga góða stund. Ganga saddur og ánægður út.

 

 

 

Deila.