Þessi ofnréttur byggir ekki síst á því góða bragði sem sólþurrkaðir tómatar og grillaðar paprikur gefa af sér.
- 1 kjúklingur, bútaður í bita
- 10 sveppir, niðursneiddir
- 1 laukur, saxaður
- 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 2 tsk paprikukrydd
- 1 dl hvítvín
- 1 dós grillaðar paprikur (t.d. Sacla Grilled Capsicum)
- 1 ca 250 g dós sólþurrkaðir tómatar
- 1 sýrður rjómi 18&
Mýkið laukinn og sveppina í olíu í þykkum potti sem má fara inn í ofn. Bætið kjúklingabitunum og hvítlauknum saman við, kryddið með paprikukryddinu og veltið um þar til búið er að brúna bitana. Bætið hvítvíni út á og látið sjóða niður.
Hellið olíunni frá grilluðu paprikunum og sólþurrkuðu tómötunum. Saxið tómatana gróft. Bætið paprikunum og sólþurrkuðu tómötunum út á. Blandið vel saman. Setjið lok á pottinn og síðan inn í 200 gráðu heitan ofn. Eldið þar í um 30 mínútur.
Takið úr ofninum. Setjið aftur á eldavélina og bætið sýrða rjómanum saman við. Látið malla í smá stund til að leyfa sósunni að þykkjast.
Berið fram með pasta, fersku salati og baguette-brauði. Suður-evrópskt rauðvín smellpassar með. T.d. Pujol Cotes du Roussillon.