Fregola með saffran og baunum

Þetta er litlríkur og fallegur pastaréttur frá ítölsku eyjunni Sardiníu  þar sem hið sérstaka pasta eyjunnar Fregola er notað. Hægt er að bera réttinn fram sem forrétt eða sem meðlæti með kjöti eða fiski.

 • 250 g Fregola Sardi pasta
 • 2 bökunarkartöflur, flysjaðar og skornar í tengina
 • 1 skalottulaukur, saxaður
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 2 dl frosnar grænar baunir
 • 7 dl kjúklingasoð
 • 2-3 timjanstönglar eða 1 tsk þurrkað timjan
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • 1/2 tsk saffran
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • lúka af ferskri saxaðri steinselju
 • 75 g rifinn Parmesan
 • ólívuolía
 • salt og pipar

Hitið olíu á stórri pönnu og mýkið skalottulaukinn og hvítlaukinn. Bætið kartöfluteningunum út á pönnuna. Veltið þeim vel upp úr olíunni og saltið. Steikið í 1-2 mínútur.

Hellið kjúklingasoðinu á pönnuna ásamt timjan, saffran og chiliflögum. Láið malla á miðlungshita í 7-8 mínútur. Setjið þá Fregola-pastað á pönnuna og látið malla áfram undir loki í 10-12 mínútur.

Athugið hvort pastakúlurnar séu tilbúnar, þær eiga að svera smá fastar undir tönn. Bætið við smá vatni á pönnuna ef þarf. Setjið baunirnar á pönnuna ásamt sítrónusafanum og látið malla áfram í 2-3 mínútur. Vökvinn á þá að vera nær alveg gufaður upp.

Takið af hitanum og blandið parmesan og saxaðri steinselju saman við ásamt vænni skvettu af góðri ólívuolíu. Bragðið tll með salti og pipar.

Deila.