Dönsk jólaönd upp á gamla móðinn

Öndin er Dönum það sem rjúpan er Íslendingum, sem sýnir kannski hve Danir eru komnir langt frá allri villibráð. En eins og Íslendingar eru þeir náttúrlega mjög íhaldssamir í uppskriftum af jólamat, enda jóladagarnir ekki heppilegur tími fyrir tilraunaeldhús nema hjá mjög hugdjörfu fólki.

Í eftirfarandi uppskrift sem komin er frá Danmörku og elduð hefur á íslensku heimili um áraraðir á jólunum hafa íslenskar Peking-endur reynst vel, þurfa þó helst að vera að lágmarki um 2.7 kíló stykkið (þær eru stundum æði litlar í frystikistum stórmarkaðanna).

 1. Öndin er hreinsuð og þurrkuð.
 2. Tveir ystu hlutar vængjanna hoggnir af, þeir, háls og innmatur sett í 1 lítra af vatni og soðið með nokkrum sveskjum og hálfu epli í klukkutíma til að búa til gott soð.
 3. Öndin krydduð vel með salti og pipar og fyllt með sveskjum og eplabitum.
 4. Lokuð með pinnum og læri og vængjum líka tyllt við með pinnum, svo hún haldi nú kyrru fyrir í ofninum.
 5. Nudduð með salti og lögð á rist yfir steikarplötu með bringuna niður. Sett í ofninn í 40 mínútur við 180 gráður.
 6. Tekin út, snúið við, salti stráð yfir og nú í ofninn við 160 gráður, helmingurinn af soðinu í ofnskúffuna og steikt þannig í um það bil 50 mínútur á kíló (tvo og hálfan tíma). Ausið öðru hverju í skúffuna.
 7. Soðið síað í pott.
 8. Mestu feitinni, þó ekki allri, fleytt ofan af, það er auðgert þegar soðið hefur kólnað aðeins, en áríðandi, því annars fyllir sósan hverja kransæð.
 9. Þykkt með hveiti og látin sjóða í tíu mínútur og smökkuð til.
 10. Öndin sett smástund í ofninn á fullu blússi svo skinnið verði stökkt.
 11. Öndin stendur í kortér, áður en hún er skorin.

Svo þarf náttúrlega að vera heimalagað rauðkál með: Kíló af rauðkáli skorið í bita, soðið með 1 dl af rifsberjasaft og 1 dl af rauðvíni, við lágan hita, epli í teningum blandað saman við, kryddað með sykri og salti eftir smekk  og soðið við lágan hita í þrjú kortér.

Rétt áður en það er borið fram má hræra tveimur matskeiðum af andafeitinni saman við, þá glansar það fallega.

Borið fram með brúnuðum kartöflum og Waldorf salati.

Til að fullkomna dönsku jólin er um að gera að hafa Riz á l’amande á eftir, enda er sá réttur aldanskur þrátt fyrir franskan hljóm nafnsins. Jafnvel í vöruskorti styrjaldaráranna áttu Danir alltaf nóg af mjólkurvörum, svo þeir tóku upp á því að drýgja hrísgrjón með rjóma í þessum eftirrétti sem alltaf hefur notið mikilla vinsælda á Íslandi. En frank-danska nafnið er miklu hátíðlegra en hinn íslenski möndlugrautur.

Með önd sem þessari eiga virkilega góð rauðvín með. Ólíkt t.d. hamborgarhryggnum dregur öndin fram það besta í góðum vín. Reynið t.d. með Finca Monasterio eða Chateau d’Agassac.

 

 

Deila.