Indverskt lambalæri

Lamb fer afskaplega vel með indverskum kryddum. Hér er það látið liggja í jógúrtkryddlegi fyrir eldun.

 • lambalæri, heilt eða hálft
 • 2 laukar, niðursneiddir
 • 1 dós tómatar
 • 1 búnt kóríander, fínsaxað
 • 2 chili-belgir, fínsaxaðir

Kryddlögur

 • 2,5 dl grísk jógúrt
 • 5 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 2 tsk salt
 • 3 msk olía

Kryddblanda

 • 1 tsk negulnagar
 • 1 tsk svört piparkorn
 • 1 tsk kóríanderfræ
 • 1 tsk cummin
 • lárviðarlauf

Hitið kryddin á pönnu þar til þau byrja að dökkna. Myljið í morteli eða kaffikvörn. Geymið.

Blandið saman jógúrt, hvítlauk, olíu og salti. Blandið kryddblöndunni saman við.

Skerið raufar í lærið. Þekjið lærið með kryddleginum, passið upp á að hann fari vel inn í raufarnar. Geymið í ísskáp, allra best er að geyma yfir nótt þannig að kjötið taki kryddbragðið vel í sig.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Setjið lærið á grind og ofnskúffu með um 1 l af vatni undir. Eldið í um 2 klst ef um heilt læri er að ræða. Lækkið hitann í 180 gráður eftir hálftíma. Snúið lærin tvisvar til þrisvar.

Hitið olíu á pönnu og mýkið laukin í 8-10 mínútur á miðlungshita eða þar til hann er orðinn mjúkur og vel brúnn. Bætið þá söxuðum chili-belgjunum út á og eldið áfram í 2-3 mínútur og bæti þá tómötunum á pönnuna. Látið malla í um 5 mínútur. Geymið.

Þegar lærið er tilbúið er það tekið úr ofninum og látið standa í 10-15 mínútur. Setjið lauk- og tómatablönduna í ofnskúffuna og blandið saman við safann þar og eldið áfram í ofninum á meðan lærið bíður. Undir lokin er söxuðum kóríander bætt saman við.

Berið niðursneitt lærið fram með laukblöndunni, indverskum kryddgrjónum og naan-brauði með hvítlaukssmjöri.

Deila.