Fleur du Cap Chardonnay 2011

Einhver merkilegasta stofnun suður-afríska víniðnaðarins er Bergkelder. Vínhús og vínkjallari sem byggður var við rætur fjallsins Papegaaiberg skammt frá Stellenbosch. Kjallarar Bergkelder teygja sig inn í fjaliið og eru vinsæll áningarstaður ferðamanna.

Bergkelder var opnaður árið 1967 og gegndi mikilvægu hlutverki í nútímavæðingu suður-afrískrar vínframleiðslu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Mörg af þekktustu vínhúsum Suður-Afríku tengdust þá Bergkelder en nú eru vínin frá Fleur du Cap helsta flaggskip þeirra. Þess má geta að 2010-árgangurinn af þessu víni var valið „Best Value“ af tímaritinu Wine Spectator síðastliðið haust.

Fleur du Cap 2011 er sneisafullt af suðrænum ávexti, perur, ananas og sætur sítrus. Þarna er greinileg eik, reykur og vanilla. Vínið er ferskt og þykkt með góðri lengd.

1.968 krónur. Mjög góð kaup.

 

Deila.