Gerard Bertrand Pic St. Loup 2010

Gerard Bertrand er einhver besti og athyglisverðasti vínframleiðandi Suður-Frakklands. Einn af þeim sem að tekur slaginn við Nýja heiminn af fullum krafti en heldur jafnframt í hefðir og stíl svæðisins. Þetta vín væri í sjálfu sér hægt að kalla „GSM“ þar sem að þetta er blanda úr þrúgunum Grenache, Syran og Mourvédre en hér er þessi blanda hins vegar í sinni upprunlegu suður-frönsku mynd og ekki þeirri áströlsku.

Það spillir svo ekki fyrir að Pic St. Loup er eitt athyglisverðasta svæðið í Languedoc. Þetta vínræktarsvæði er um 20 kílómetra norður af borginni Montpellier og nákvæmlega þar togast hafið og innsveitirnar á um hver ráði loftslaginu. Því eru bæði mjög heitir blettir í Pic St. Loup þar sem Mourvédre nýtur sín til fulls og svalari blettir þar sem Syrah nær frábærum þroska.

Þetta er ungt vín og enn svolítið lokað, það borgar sig að umhella því með góðum fyrirvara til að leyfa því að opna sig. Það er mjög dökkt á lit, í nefi öflugur, heitur en ferskur ávöxtur, töluvert kryddaður. Plómur, bláber, brómber og ferskar kryddjurtir og lyng, nokkuð tannískt, langt og mikið. Verulega flott vín og þegar alveg hreint magnað þegar að maður sér verðið.

2.799 krónur. Mögnuð kaup sem tryggir víninu fullt hús.

Deila.