Ítalskt í Boston

Boston á austurströnd Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum orðið æ vinsælli á meðal íslenskra ferðamanna. Borgin hefur upp á gífurlega margt að bjóða, er með elstu borgum Bandaríkjanna og þar að auki er hún nær okkur en aðrar bandarískar borgir sem flogið er til.

Veitingahúsalifið í Boston er fjölbreytt og býður upp á margt fyrir þá sem þangað koma. Borgin skiptist í nokkur svæði og hafa mörg þeirra sín sérkenni. Áin Charles klýfur borgina í tvennt. Sunnanmegin er sjálf Bostonborg en norðanmegin er sveitarfélagið Cambridge, þar sem sumar af þekktustu menntastofnunum Bandaríkjanna er að finna, s.s. Harvard og MIT.

Flestir myndu líklegast tengja Boston við írska innflytjendur enda hafa þeir lengi verið áberandi í þjóðlífinu á þessum slóðum. Hið hefðbundna vígi þeirra er South Boston eða Southie. Það eru hins vegar fleiri menningarafkimar í borginni. North End er italska hverfið í Boston og var lengi vel klofið frá miðborginni af miklum umferðarmannvirkjum sem voru verulegt lýti á borginni. Fyrir mörgum árum var ákveðið að grafa mannvirkin í göng og voru þessar framkvæmdir, nefndar „The Big Dig“, eitthvert viðamesta verkefni af þessu tagi sem nokkur borg hefur ráðist í. Árum og áratugum saman var stór hluti borgarinnar eitt framkvæmdasvæði og margir töldu að svo yrði um alla eilífð. Nú mörgum árum og þúsundum milljarða króna síðar er verkefninu lokið og opin svæði og gönguleiðir komin þar sem áður voru hraðbrautir og umferðarbrýr. Aðgengi að North End hefur því batnað til muna og hverfið er vinsælla en nokkru sinni fyrr.

North End einkennist af múrsteinsrauðum byggingum og megingatan Hanover Street er stútfull af veitingastöðum, langflestum þeirra ítölskum. Þeir eru vissulega misgóðir og margir þeirra bjóða fyrst og fremst upp á hefðbundin amerísk-ítalskan mat, rauðar sósur og pasta. Inn á milli eru svo nokkrir afbragðs góðir staðir. Einn sem lengi hefur verið í uppáhaldi er Trattoria Il Panino á Parmenter Street, hliðargata upp af Hanover. Frábærir pastaréttir, skelfiskur og risotto. Klassískt mið-ítalskt og á sumrin er hægt að komast út úr litlum þröngum staðnum og snæða úti á yfirbyggði veröndinni, sem er klemmd á milli tveggja húsa.

Annar sígildur staður er The Daily Catch á Hanover, agnarsmár og lætur ekki mikið yfir sér. Hann byggir á einfaldleika, stundum jafnvel yfirþyrmandi í borðbúnaði og öðru, en jafnframt frábærum, ferskum hráefnum, nær einvörðungu sjávarfangi. Það getur verið erfitt að komast að, en það er þess virði. Annar staður fyrir þá sem vilja sjávarrétti upp á einfaldan, suður-ítalskan máta er Giacomos.

Sumir staðir brjótast aðeins út úr mynstrinu og er Taranta efst á Hanover dæmi um slíkan stað. Matreiðslumaðurinn er frá Perú og matseðillinn byggist að mestu á samspili hráefna og aðferða frá Perú og Ítalía. Sérstök blanda óneitanlega og oftast heillandi. Staðurinn er „kósí“, þjónustan vinaleg og maturinn góður. Einn af helstu réttum Taranta, nautalund með espresso, olli þó vonbrigðum.

Fyrir þá sem vilja pizzu er Pizzeria Regina á Thacher Street málið. Þetta eru líklega bestu pizzur borgarinnar og þótt viða væri leitað. Staðurinn sjálfur er falin inni í North End og í sjálfu sér ekkert til að hrópa húrra yfir, það er ekki mikið lagt upp úr innréttingum og þjónustan ekki þekkt fyrir mikla lipurð. En pizzurnar! Á síðustu árum hefur útibúum frá Regina verið komið upp víða um borgina en það er hins vegar upprunalegi staðurinn í North End sem er málið.

Það ætti svo enginn að koma til North End – og jafnvel Boston – án þess að koma við í Mike’s Pastry á Hanover. Þetta er stofnun í borgarlífinu, bakaríki sem sérhæfir sig í fylltum canelloni-kökum, að margra mati einhverjum þeim bestu í Bandaríkjunum. Sagan segir að þegar Clinton var forseti hafi hann yfirleitt heimtað að stoppa á Mike’s og götunni verið lokað af lífvarðarsveitunum á meðan. Það fá hins vegar ekki allir slíka þjónustu. Aðrir þurfa að standa í löngum (mjög löngum) biðröðum áður en þeir komast að búðarborðinu og kökunum. Biðin er hins vegar vel þess virði.

 

 

Deila.