Stórsteik á grillið

Það eru til steikur og svo eru til alvöru steikur. Grillsteik er í hugum flestra steik fyrir einn þó hún geti vissulega verið væn 3-400 gramma Ribeye eða T-Bone. Það er hins vegar líka hægt að taka mun stærri steikur og grilla með stórkostlegum árangri. Fátt er girnilegra en stórsteik á beini á grillveisluborðinu.

Góð kjötborð geta tekið til nautahrygg, vel hanginn, og sagað niður í umbeðna stærð. Best er að fá þann hluta sem ella hefði verið sneiddur niður í Porterhouse-steikur og fyrir 6-8 er um 4 kílóa steik á beini tilvalin. Melabúðin er til dæmis alltaf boðin og búin að koma til móts við kúnnana.

Mikilvægt er að kjötið sé við stofuhita þegar að það fer á grillið en áður er gott að krydda það líkt og Ítalir gera með steikur sem þessar og leyfa steikinni að taka kryddinn í sig í einhvern tíma.

Grillið á háum hita til að byrja á öllum hliðum. Slökkvið á miðjubrennaranum, lækkið hitann verulega og lokið grillinu. Passið að hitinn á grillinu sé helst ekki mikið yfir 150 gráður. Grillið áfram í um 45 mínútur og snúið steikinni 2-3 sinnum.

Setjið að lokum inn í 75 gráðu heitan ofn og látið steikina standa þar þangað til um 10 mínútum áður en að hún fer á borðið. Ef grillið er nógu nákvæmt til að þið treystið ykkur til að halda slíkum þar er um að gera að leyfa steikinni að vera þar áfram. Leyfið henni loks að standa síðustu tíu mínúturnar eða svo og sneiðið síðan niður. Berið fram með t.d. bökuðu rótargrænmeti, Béarnaisesósu og/eða kaldri graslaukssósu.

Deila.