Það er enginn béchamel-sósa í þessu lasagna. Þess í stað undursamleg blanda af þremur ítölskum ostum: Parmesan, mozzarella og ricotta. Best er að nota ferskar lasagnaplötur og gerir eldunartíminn ráð fyrir því.
En fyrst er byrjað á kjötsósunni.
- 400 g nautahakk
- 2 laukar, saxaðir
- 3-4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- rauðvín/hvítvín
- 1 dós tómatasósa/passata
- 2 tsk óreganó
- salt og pipar
Hitið olíu á pönnu og mýkið laukinn. Eftir 3-4 mínútur er hvítlauknum bætt út og síðan hakkinu. Steikið þar til að hakkið hefur allt tekið á sig lit. Kryddið með óreganó, salti og pipar. Hellið næst vænni skvettu af víni út á pönnuna. Leyfið því að sjóða niður að mestu og bætið þá tómatasósunni út á. Lækkið hitann og látið malla í um 15 mínútur á vægum hita.
Á meðan eru ostarnir undirbúnir
- 300 g ricotta
- 2 mozzarellakúlur (þessar í bláu pokunum)
- 75 g parmesan
Rífið parmesan á fína hlutanum á rifjárninu. Rífið mozzarella á grófa hlutanum. Blandið ostunum saman.
Penslið smá ólífuolíu í botninn á lasagnaforminu. Þá er lasagnaplötum raðað þannig að þær þekji botninn. Klippið til ef þarf. Dreifið næst þriðjungi af sósunni yfir og þriðjungi af ostablöndunni. Þá koma lasagnaplötur aftur og koll af kolli. Efst er kjötsósa og ostur. Það má rífa smá auka parmesan yfir efst.
Setjið inn í 200 gráðu heitan ofn og eldið í 15-20 mínútur. Osturinn ofan á má ekki brenna.
Svona réttur er mjög vínvænn og fellur frábærlega að góðu Chianti Classico, t.d. Brolio.