Þorskhnakki með seljurótarmauki

Þorskur er einhver flottaski fiskur sem hægt er að fá. Norðmenn kunna vel að meta hann ekki síður en Íslendingar en á þessa uppskrift þar sem seljurótarmauk og sultaður skalottulaukur er borin fram með rákumst við einmitt á á norsku matarbloggi. Það er best að nota þykka þorskhnakka en einnig má nota saltfisk ef þið fáuð vel útvötnuð hnakkastykki.

Sultaður skalottulaukur

  • 8 skalottulaukar, saxaðir
  • 1,5 dl balsamikedik
  • 1 dl fiskisoð
  • 1 msk púðursykur
  • 1 msk smjör
  • ólívuolía

Mýkið laukinn í olíu á vægum hita í um fimm mínútur. Bætið þá púðursykrinum út á pönnuna og bræðið saman við laukinn. Þá er balsamediki hellt út, hitinn hækkaður aðeins og látið sjóða niður að mestu áður en fiskisoðinu er bætt út á og sósan soðin niður frekar. Hrærið smjörinu saman við í lokin.

Seljurótarmauk

  • 300 g seljurót
  • 300 g kartöflur
  • 25 g smjör
  • salt og pipar

Flysjið seljurót og kartöflur og skerið í bita. Sjóði þar til að grænmetið er orðið mjúkt. Maukið ásamt smjörinu í matvinnsluvél. Bragðið til með salti og pipar.

Þorskurinn

Hitið smjör á pönnu og steikið hnakkastykkin varlega, 2-3 mínútur á hvorri hlið. Saltið og piprið. Setjið pönnuna inn í 175 gráðu heitan ofn í 3-4 mínútur.

Setjið loks skammt af seljurótarmaukinu á disk ásamt sultaða skalottulauknum og síðan þorskinn ofan á.

Deila.