Gómsæt graskerssúpa með engifer og kókos

Grasker eru náskyld kúrbít og „Butternut Squash“ er algengt á þessum árstíma í grænmetisborðum stórmarkaða. Það er góð uppistaða í matarmikla og bragðgóða súpu sem er borin fram með hneturjómasósu.

 • 1 stórt „Butternut“ grasker
 • 1 laukur
 • 1 lítill fennelbelgur
 • 2 msk rifinn engiferrót
 • 7 dl kjúklingasoð
 • 2 dl kókosrjómi (Coconut Cream) eða kókosmjólk
 • safi úr hálfri sítrónu
 • ólífuolía
 • smjör
 • salt

Skerið graskerið í tvennt og kjarnhreinsið.Penslið skurðhliðina með smá ólífuolíu. Setjið á bökunarpappír á bökunarplötu með skurðhliðina niður. Setjið inn í 175 gráðu heitan ofn og bakið í um klukkustund. Takið graskerið út, það á að vera orðið mjög mjúkt. Leyfið því að kólna aðeins og hreinsið mjúkt ávaxtakjötið úr því.

Saxið laukinn. Skerið fennelbelginn niður, fyrst í tvennt óg síðan í bita.

HItið smjör í þykkum potti. Mýkið lauk, fennel og engifer á miðlungshita í 8-10 mínútur. Bætið þá graskerinu og kjúklingasoðinu saman við. Látið malla undir loki í 20 mínútur.Takið lokið af og leyfið að malla áfram í 10 mínútur.

Slökkvið á hitanum og hrærið kókosrjómanum saman við.

Maukið súpuna í matvinnsluvél. Blandið sítrónusafanum saman við og bragðið til með salti.

Setjið í skálar ásamt skeið af hneturjómasósu.

Hneturjómasósa

 • 2 dl pecanhnetur
 • 1 dós sýrður rjómi (18%)
 • 1 msk heslihnetuolía (fæst t.d. í Lifandi markaði)
 • klípa af Cayennepipar

Setjið Pecanhneturnar í eldfast fat og þurristi í ofni í átta mínútur við 175 gráður.

Maukið hneturnar í matvinnsluvél. Blandið hnetunum, sýrða rjómanum og heslihnetuolíunni saman. Bragðið til með Cayennepipar.

 

Deila.