Rice Krispies-bitar með sykurpúðum

Sælgætisbitar á grunni Rice Krispies eða það sem á ensku er kallað Rice Krispies Treats eiga sér langa sögu í Bandaríkjunum og hafa verið uppáhald margar kynslóða þar vestra. Þetta vinsæla morgunkorn kom fyrst á markaðinn árið 1928 og um áratug síðar slógu tvær konur, þær Malitta Jensen og Mildred Day, í gegn þegar að þær blönduðu saman bræddum sykurpúðum (marshmallows) og smjöri saman við Rice Krispies í tengslum við kökubasar fyrir hópinn Campfire Girls.

  • 100 g smjör
  • 500 g sykurpúðar
  • 300 g Rice Krispies
  • 1 tsk vanilludropar.
  • 100 g súkkulaði

Byrjið á því að bræða smjörið á miðlungshita í stórum potti. Þegar smjörið er bráðnað er sykurpúðunum bætt saman við. Hrærið í með trésleif þar til að sykurpúðarnir hafa bráðnað og eru orðnir að þykkri sósu. Þá er vanilludropunum bætt saman við og loks Rice Krispies. Hrærið þetta allt varlega saman.

Þá er komið að því að setja deigið í mót sem búið er að þekja með bökunarpappír. Stærðin á mótinu skiptir ekki öllu máli. Eftir því sem það er stærra verða bitarnir lægri og öfugt. Þrýstið deiginu niður í mótið með höndunum og reynið að slétta yfirborðið eins vel og þið getið.

Geymið á svölum stað og leyfið blöndunni að stirðna vel.

Þegar blandan er orðin hörð er súkkulaðið brætt í vatnsbaði og síðan hellt yfir mótið. Þegar það hefur kólnað vel má taka „kökuna“ upp úr mótinu og skera í minni bita.

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum

Deila.