Þessa uppskrift var á boðstólnum í saumaklúbbnum mínum nýverið. Mér finnst hún alveg snilld þar sem að hún tekur engan tíma og jafnvel er hægt að kaupa tilbúin marengsbotn en ég læt þó fylgja hér uppskrift af marengs. Það er tilvalið að gera hana deginum á undan en þá ganga brögðin betur saman. Það á því ekki að vera neitt stress að halda saumaklúbb með þessa tertu. Það má segja að þetta sé
afbrigði af Pavlovu – marengs, rjómi, ávextir – en þó sett í nýjan búning.
Púðursykursmarengs
- 4 eggjahvítur
- 4 dl (tæplega) púðursykur
Hrærið saman í hrærivél í um hálftíma. Smyrjið 2 form og álpappír ofan á og smyrjið líka álpappírinn. Þessi uppskrift er í 2 botna en það er smekksatriði hvort að þið notið 1 botn eða 2 í þessa tertu.
Bakið við 150 gráður neðarlega í ofni í 70 mínútur.
Botninn er síðan brotinn niður og settur í botninn á formi. Þá er Rommfrómas frá Kjörís settur yfir, þá þeyttur rjómi og loks jarðarber, bláber og/eða aðrir ávextir og jafnvel hrískúlur.