Whoopies – nýjasta æðið

Whoopies-kökurnar frá Bandaríkjunum hafa um nokkurt skeið farið eins og eldur um sinu í Evrópu, Whoopies eða Whoopie Pies  eru ekki nýjar af nálinni og eiga sér langa sögu á meðal Amish-fólksins í Pennsylvaníu og hluta af Nýja-Englandi í Bandaríkjunum. Til dæmis eru þær hið opinbera sælgæti Maine-ríkis.Raunar hafa sprottið upp harðar deilur á milli ríkjanna í Nýju-Englandi og hafa bakarí í Massachussets til dæmis haldið því fram að þau hafi verið fyrst með að kynna Whoopies til sögunnar á fyrri hluta síðustu aldar.

Deilurnar má rekja til hinna skyndilegu og vaxandi vinsælda Whoopies og útslagið gerði þegar að Oprah Winfrey tók þær  fyrir í þætti sínum.

Klassískar Whoopies-kökur eru dökkar súkkulaðibollur sem settar eru saman með vanillukremi á milli og stundum vanillu-sykurpúðakremi, eins konar ofvaxnar mjúkar Oreo-kexköxur. Rétt eins og með bollakökurnar (cupcakes) eru Whoopies farnar að taka á sig hinar fjölbreytilegustu myndir og eru nú til í öllum regbogans litum og útgáfum.

Í þessari útgáfu notaði ég smjörkrem með hvítu súkkulaði sem kom vel út.

 • 1 stórt egg
 • 150 grömm sykur
 • 125 grömm súrmjólk
 • 1/4 dl mjólk
 • 2 tsk vanilludropar
 • 100 grömm dökkt súkkulaði eða suðusúkkulaði
 • 75 grömm smjör
 • 275 grömm hveiti
 • 2 msk kakó
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk lyftiduft

Hrærið saman egg og sykur þangað til létt og ljóst. Bætið síðan súrmjólkinni,mjólkinni og vanilludropunum út í .  Bræðið súkkulaðið með smjörinu í vatnsbaði.  Hellið súkkulaðinu út í blönduna.  Blandið þurrefnum saman og setið út í blönduna í skömmtum.  Setjið síðan deigið inn í ísskáp í cirka 30 mín eða jafnvel lengur til að auðveldara verði að móta deigið í kúlur. Mótið deigið síðan í kúlur,allt eftir því hversu margar (og stórar) whoopies þú vilt fá út úr deiginu og setjið á bökunarpappír. Bakið við 175 gráður í 13-15 mín. Leyfið kökunum að kólna áður en þið setjið kremið á.

Krem:

 • 250 grömm flórsykur
 • 200 grömm smjör
 • 200 grömm hvítt súkkulaði bráðið
 • 1 tsk vanilludropar

Bræðið  hvíta súkkulaðið  yfir vatnsbaði. Þeytið flórsykur og smjör vel saman, bætið siðan bráðna súkkulaðinu við og vanilludropunum. Bætið við meiri flórsykri ef ykkur finnst kremið vera of þunnt. Setjið kremið í sprautupoka með stúti á og sprautið á botninn á kökunni,  leggið síðan aðra smáköku yfir og þrýstið saman.

Deila.