Nautalund Wellington með sinnepssósu

Nautalund Wellington er hægt að útfæra á mismunandi vegu. Klassísku uppskriftina okkar má finna með því að smella hér. Í þessari uppskrift breytum við örlítið til, notum steinselju í staðinn fyrir timjan og bætum við furuhnetum og hvítlauk.

Við byrjum á að gera svokallað „duxelle“ með sveppum til að þekja lundina. Uppskriftin miðast við hálfa nautalund.

 • 300 g sveppir
 • 2 skalottulaukar
 • 3 hvítlauksrif
 • væn lúka steinselja, fínsöxuð, helst flatlaufa
 • 1 dl furuhnetur
 • salt og pipar

Saxið sveppina mjög fínt. Það er hægt að gera með hníf en fljótlegast er að gera það í matvinnsluvél. Þá verður hins vegar að fara varlega til að mauka þá ekki. Saxið næst laukana mjög fínt. Hitið smá olíu á pönnu og steikið sveppina ásamt laukunum, markmiðið er að ná sem mestu af vökva úr sveppunum. Í lokin er saltað og piprað og fínsaxaðri steinseljunni bætt við ásamt furuhnetunum. Takið af pönnunni og geymið.

Næst er nautalundin brúnuð á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Takið af pönnunni og geymið.

 • smjördeig
 • ítölsk prosciuttoskinka, ca 12 sneiðar
 • egg

Fletjið smjördeigið út. Tilbúið smjördeig er yfirleitt  í nægjanlega stórum sneiðum til að rúma lundina.

Smyrjið sveppablöndunni á smjördeigið og raðið síðan skinkusneiðunum á hana.

IMG_5491

Leggið lundina á deigið og rúllið því upp. Setjið á plötu þannig að „brotið“ snúi niður. Lokið fyrir endana með því að þrýsta á með gaffli. Pískið eggið og penslið deigið. Skerið nokkrar ræmur í deigið þversum og gatið aðeins með gaffli. Það er líka skemmtilegt að skera út nokkur „laufblöð“ úr afskurðinum til að skreyta lundina með.

Eldið í 200 gráðu heitum ofni þar til að deigið er orðið gullið og fallegt, 25-30 mínútur. Takið steikina út og leyfið að jafna sig í að minnsta kosti 5 mínútur áður en að hún er skorin.

Á meðan er sinnepssósan elduð á sömu pönnu og lundin var steikt á. Ekki hreinsa hana á milli.

 • 2 skalottulaukar, fínt saxaðir
 • 3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • nokkrir timjanstönglar
 • 2 dl koníak (má líka nota t.d. brandy eða dökkt romm)
 • 2,5 dl rjómi
 • 3 dl kröftugt nautasoð
 • 2 vænar msk Dijon sinnep
 • salt og pipar

Hitið smá smjör á pönnunni og brúnið laukana og timjanstönglana í nokkrar mínútur. Hellið þá koníakinu út á og sjóðið niður að ca 3/4. Bætið soðinu út á og sjóðið niður um helming. Síið og setjið sósuna í pott. Bætið rjóma og sinnepi út í og eldið á miðlungshita þar til að sósan er orðin þykk og bragðmikil Það þarf að sjóða aftur niður um að minnsta kosti helming. Bragðið til með salti og pipar.

Með þessu er gott að hafa frábæra kartöflumús. Ef þið viljið vera extra flott á því er hægt að gera toppa úr kartöflumúsinni sem eru settur á bökunarpappír á plötu og eldaðir í ofni við 225 gráður þar til að þeir fara að taka á sig lit. Svona einföld útgáfa af svokölluðum Duchesse-kartöflum. Það er líka gott að bæta smá rifnum parmesan-osti saman við músina.

Með þessu eiga öll góð rauðvín með. Ekki síst hágæða Bordeaux-vín á borð við Chateau Pibran eða Chateau Tour de Capet. .

 

 

Deila.