Pizza með ítölskum pylsum

Ítalskar pylsur eða „Italian sausage“ er meðal vinsælasta áleggsins á pizzu í norðausturhluta Bandaríkjanna þar sem ítalsk-ameríska matarmenningin er hvað mest áberandi. Það er ekki hægt að ganga að ítölskum pylsum vísum í öllum kjötborðum hér líkt og í Bandaríkjunum og því gerum við okkar eigin blöndu til að nota á pizzuna. Minnsta mál.

Ítölsku pylsurnar

  • 500 g grísahakk
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk óreganó
  • 1 msk fennel
  • 1 tsk paprika
  • 1/2-1 tsk chiliflögur
  • 1/2 tsk laukkrydd (má sleppa)
  • Maldonsalt
  • nýmulinn pipar

Blandið öllu vel saman og mótið mjög, mjög litlar bollur. Það er ekki síst mikilvægt að þær séu litlar þannig að þær nái að eldast í gegn á þeim tíma sem það tekur að baka pizzubotninn.

Þá er það sósan á pizzuna. Takið um 2,5 dl af tómatapassata og blandið saman við 2 pressaða hvítlauksgeira, 1-2 tsk af óreganó, vænni skvettu af ólífuolíu og salti og pipar.

Gerið pizzudeig og fletjið út. Dreifið pizzasósunni á deigið. Skerið niður 2 stórar kúlur af ferskum mozzarella og dreifið yfir botninn. Dreifið síðan litlu ítölsku pizzubollunum yfir.

Setjið inn í 250 g heitan ofn og bakið þar til botninn er stökkur, osturinn hefur bráðnað og bollurnar eru eldaðar, ca 10-12 mínútur. Sáldið söxuðu fersku basil yfir.

Fjölmargar aðrar pizzu-uppskriftir má svo finna hér.

Deila.