Penne með pylsum og sítrónurjómasósu

Við höfum áður leikið okkur með margvíslegum hætti með „ítalskar pylsur“ eða það sem Vestanhafs er kallað Italian Sausage og hægt er að gera með nokkuð einföldum hætti þótt slíkar pylsur séu ekki á boðstólum víða hér á landi. (Þó í pylsubúðinni við Rauðalæk).Í þessum pastarétti er mikið af sítrónu sem gefur einstaklega gott bragð. Fyrir þá sem vilja ekki of ágengt sítrónubragð er auðvitað hægt að nota rifinn börk og safa úr hálfri sítrónu í stað heillrar.

Fleiri uppskriftir með ítölskum pylsum má finna hér.

Ítölsk “salsiccie” pylsublanda

 • 500 g grísahakk
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • 1 msk óreganó
 • 1 msk fennel
 • 1 tsk paprika
 • 1/2-1 tsk chiliflögur
 • 1/2 tsk laukkrydd (má sleppa)
 • Maldonsalt
 • nýmulinn pipar

Blandið öllu vel saman. Þá er komið komið að því að gera pastasósuna. Auk kjötblöndunnar þarf eftirfarandi:

 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 2,5 dl rjómi
 • 75 g rifinn Parmesan
 • 1 sítróna, börkurinn rifinn og safinn kreistur
 • 1/2  tsk rifin múskathneta
 • Pasta (t.d. Penne)
 • 1 búnt fínt söxuð steinselja, helst flatlaufa
 • olía

Sjóðið pasta.

Hitið olíuna á pönnu og mýkið laukinn. Bætið kjötblöndunni út á og brúnið vel í 12-15 mínútur. Bætið þá rjómanum út á og sjóðið niður á miðlungshita í 7-8 mínútur. Bætið loks sítrónuberkinum, sítrónusafanum, smá rifinni múskathnetu og steinseljunni. Bragðið til með salti og pipar og blandið loks pastanu vel saman við.

Rauðvín hentar best með, reynið t.d. Cannonau frá Sella & Mosca á Sardiníu.

Deila.