Guðrún Jenný bloggar: „Butternut squash“ risottó

Þessi réttur er fallega gulur á litinn og minnir mann á sumarið þó svo að í mínum huga sé risottó frekar haust- eða vetrarréttur.  Mér fannst því tilvalið að elda þennan rétt á degi þar sem sólin skein bjart en það var kalt úti – svona týpískt gluggaveður.  Það kom mér svolítið á óvart hvað yngstu kynslóðinni á heimilinu þótti þetta gott því að hún er yfirleitt ekki mikið fyrir nýjungar í matargerð.  Uppskriftina fann ég á netinu hjá Pioneer Woman og breytti henni örlítið.

Ég fann ekkert íslenskt heiti yfir „butternut squash“ en líklega má kalla þetta grasker þó svo þetta sé ekki þetta hefðbundna Halloween grasker.

  • ½ butternut squash skorið í teninga
  • 1 laukur saxaður
  • Smjör og olía til steikingar
  • salt og pipar eftir smekk
  • smá chili duft
  • 1 ½ bolli Arborio hrísgrjón
  • ca 6 bollar grænmetissoð
  • smá turmeric eða saffron ef þið viljið vera grand á því
  • ¼ bolli rjómi
  • Parmesan ostur
  • steinselja söxuð

Byrjið á því að steikja við miðlungshita graskerið þar til það er orðið mjúkt.  Takið það af pönnunni og geymið.  Laukurinn er steiktur þar til hann er glær og þá er hrísgrjónunum bætt út í og hitinn lækkaður.  Byrjið nú að bæta soðinu við grjónin smám saman – eina ausu í einu og leyfið grjónunum að sjúga í sig vökvann áður en þið bætið næstu ausu við.  Passið að hræra mjög varlega svo að grjónin fari ekki í sundur.  Þegar þið eigið ca bolla eftir af soðinu smakkið þá grjónin þau eiga að vera mjúk en þó ekki alveg maukuð.  Notið restina af soðinu ef þar.   Bætið turmeric/saffran við ásamt graskerinu.  Að síðustu er rjómanum og Parmesan ostinum blandað varlega saman.  Smakkið til með salt og pipar

Berið fram með Parmesan osti og saxaðri steinselju.

Guðrún Jenný

Deila.