Guðrún Jenný bloggar: Hvolfkaka – Upside down cake

Frú Lauga er verslun sem mér finnst mjög gaman að koma í enda boðið upp á öðruvísi vörur þar en í öðrum „venjulegum“ matvöruverslunum.  Í desember ár hvert og fram í mars/apríl er hægt að versla hjá þeim blóðappelsínur frá Sikiley á Ítalíu.  Ég held því fram að þessar appelsínur séu ávanabindandi.  Nú í ár er ég búin að kaupa fjóra átta kíló kassa af blóðappelsínum og er búin að koma allri fjölskyldunni upp á að borða þær.  Við borðum þær beint, skerum þær út í AB mjólk eða pressum til að fá dýrindis blóðappelsínusafa.  Mér datt í hug að breyta aðeins til og prófa að nota appelsínurnar í bakstur.  Eftir langa og mikla skoðun á netinu þá datt ég niður á uppskrift af sítrónu hvolfköku (e. lemon upside down cake).  Svona hvolfkökur finnst mér svo dásamlega gamaldags – ég varð að prófa og ákvað að nota appelsínurnar góðu í stað sítrónu.

Þetta þarf í deigið:

 • 3 egg
 • 150 g sykur
 • 150 g hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 150 g smjör – brætt
 • 1-2 tsk vanilludropar
 • 2 msk blóðappelsínusafi
 • 1-2 tsk rifinn blóðappelsínubörkur

Þetta þarf í karamelluna:

 • 150 g sykur
 • 4 msk vatn

Þetta þarf ofan á karamelluna:

 • 2 blóðappelsínur – skornar í mjög þunnar sneiðar

Smelluform er fóðrað með bökunarpappír  og  hliðar formsins smurðar.  Ég pakka svo alltaf forminu inn í álpappír til að koma í veg fyrir að það leki úr því niður í ofninn.   Hitið ofninn í 180°C

Karamellan er búin til með því að hita sykur og vatn í potti.  Þetta tekur smá stund, passið að brenna ykkur ekki en sykurinn verður mjög heitur.  Þegar karamellan er orðin fallega ljósbrún er henni hellt í formið.  Þar ofan á er blóðappelsínu sneiðunum raðað.

Sjálft kökudeigið er búið til með því að þeyta saman sykur og egg með vanilludropum þar til blandan er létt og ljós, bætið þá blóðappelsínusafanum við.  Hveiti og lyftidufti hrært varlega saman við og smjörið svo sett í – passið að það sé ekki alveg brennandi heitt.  Að síðustu er rifna berkinum bætt í blönduna.  Þessu er svo hellt yfir karamelluna og appelsínusneiðarnar í forminu.

Kakan er bökuð ca 45 mín.  Best er að kæla kökuna aðeins í forminu áður en henni er hvolft á kökudisk.

Gott er að bera kökuna fram með sýrðum eða þeyttum rjóma.

Guðrún Jenný

Deila.