Grillaður „butterfly“ kjúklingur

Það er vandasamt að grilla heilan kjúkling þannig að hann eldist jafnt. Ein besta leiðin er grilla fuglinn á teini (rotisserie) en það krefst sérstaks aukabúnaðar á grillið. Önnur aðferð er bjórdolluaðferðin svokallaða. Ein þægilegasta aðferðin er hins vegar að skera kjúklinginn í „butterfly“ og grilla hann þannig.

„Butterfly“ aðferðin er yfirleitt notuð fyrir stærri, beinlaus kjötstykki og felst í því að skera inn í kjötbitann miðjan og nær alveg í gegn báðum megin og fletja síðan kjötbitann út eins og bók eða fiðrildavængi, eins og nafnið á skurðinum vísar til. Þessa aðferð má nota í staðinn fyrir að berja bitann til með kjöthamri eða ásamt því að berja hann til. Það má til dæmis skera úrbeinað lambalæri í butterfly eða kjúklingabringur.

Aðferðin er nokkuð önnur þegar heill kjúklingur er skorinn í butterfly. Það er hins vegar einfalt og fljótlegt að útbúa fuglinn á þennan hátt. Notið annaðhvort beittan hníf eða eldhússkæri og fjarlægið hryggjarbeinið með því að skera/klippa sitt hvorum megin við það. Opnið fuglinn og þrýstið aðeins á hann.

Það er síðan gott að útbúa eftirfarandi kryddlög:

  • safi úr einni sítrónu
  • 1 msk rifinn sítrónubörkur
  • 1/2 dl ólífuolía
  • 3-4 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 2-3 rósmaríngreinar, saxaðar
  • 1/2 tsk chiliflögur

Látið kjúklinginn liggja í leginum í ísskáp í 1-2 klukkutíma, gjarnan lengur. Takið kjúklinginn úr leginum og saltið og piprið.

Setjið á grillið þannig að skurðhliðinn snúi niður. Grillið í 15-20 mínútur, hafið aðeins minni hita undir fuglium sjálfum. Snúið einu sinni við og grillið á hinni hliðinni í nokkrar mínútur og snúið honum loks við aftur og hafið á grillinu þar til hann er fulleldaður.

Fleiri uppkriftir af grilluðum kjúkling er hægt að finna hér.

Deila.