Arndís Ósk bloggar: Casa Fiesta sagt stríð á hendur á laugardegi

Ég er afskaplega hrifin af mexíkóskum mat og í miklu hallæri hendi ég hakki á pönnu með tómötum úr dós, lauk og krydda það með cumin kryddi og smá kanil, vef það inn í tortilla með salsa, sýrðum og nokkrum bitum af avókadó.  Maður yrði réttilega skotin á færi í Tijuana ef maður myndi voga sér að kalla þetta mexíkóskt.  En ég byrjaði fyrir nokkrum árum að elda ekta mexíkóskt og komst að því að það er mikil kúnst og það er ekkert svona in-and-out eins og þegar maður skutlar í ítalskan mat, ó nei.  Hefðbundin mexíkósk matargerð gerir ráð fyrir því að konur hafi lítið annað að gera en að standa sveittar yfir pottum svo dögum skiptir áður en matur er borin á borð – íslenskar brussur hafa ekki slíkan tíma.

Ég hef mikið stuðst við bók eftir Thomasina Miers „Mexican food made simple“ en í titli bókarinnar felst mikil lygi, þar sem þessar uppskriftir eru kannski ekki flóknar, en þær eru hráefnis- og tímafrekar.  Hins vegar eru þær gómsætar og þið munið ekki kaupa Casa Fiesta salsa eftir að hafa prófað að gera ykkar eigið úr þessari bók – kannski mun ég í góðmennskum minni deila þeirri uppskrift með ykkur en hún er með því einfaldara sem ég hef fundið í bókinni.

Ég hef oft gert kjúkling í ýmsum tegundum af „mole“ (sem þýðir sósa þarna í heiminum) en þær uppskriftir hafa ekki valdið vonbrigðum en eru afskaplega tímafrekar þar sem þurrrista þarf flest innihald, blanda svo saman og mauka í restina. Ég ákvað því í græðgiskasti á laugardegi að gera einfalda útgáfu af þessu, og ég var spennt fyrir þessu því hægt er að elda þetta í tvennur lagi.  Ég er mjög hrifin af mat sem maður getur eldað í tvennu lagi, þ.e.a.s. byrjað og gert eitthvað smá, rokið svo í burtu og keypt ryksugupoka, og svo komið tilbaka og klárað.  Þessi uppskrift er svoleiðis en við sjóðum kjúkling (poach) sem gerir hann góðan og djúsí og svo gerum við sósuna sem við bætum svo tættum kjúkling út í.

Rauður og heitur mexíkóskur kjúklingur (spicy bird in a red mole)

Kjúklingur er settur í gang:

 • 1 kjúklingur, skolaður í köldu vatni
 • 1 rauður laukur skorin í fernt
 • 1 gulrót gróflega skorin niður
 • 2 greinar timjam
 • 1/2 búnt fersk steinselja
 • 10 piparkorn
 • 2-3 lárviðarlauf

Þetta er mjög auðvelt, öllu er skutlað í pott og vatn sett út í þannig að það fljóti aðeins yfir kjúklinginn.  Náið upp suðu á millihita, setið þá lokið á og lækkið í hitanum þannig að suðan rétt haldist.  Leyfið þessu að krauma í 15-20 mínútur og slökkvið þá undir pottinum en leyfið þessu að standa á hellunni þar til þetta er orðið kalt eða ylvolgt (ca. 4-5 tímar, má líka bíða yfir nótt).  Þið takið svo soðið (eins og öllum góðum húsmæðrum sæmir) og geymið en það er gott er að geyma það í frysti fyrir súpur og sósur.  Kjúklingurinn er tekin af beininum með puttunum í ca. munnbita stóra bita (ég nýti manninn minn í þetta verk).

Ef þið eruð í algjöru hallæri má nota kjúklinga afganga eða þessa hræðilegu kjúklinga sem hægt er að kaupa eldaða í stórmörkuðum – en þessi er miklu, miklu betri þannig að ég vorkenni engum að skutla einum svona í gang.

Sósan:

 • 1-2 matsk. ólífuolía
 • smá biti smjör
 • 1 stór saxaður laukur
 • 1 matsk. púðursykur
 • 1 tsk. allrahanda
 • 1 tsk. kanill
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 hvítlauksgeirar saxaðir
 • 1 hvítvínsglas
 • 1/2 tsk. rauður þurrkaður chili
 • 1/2 tsk. cumin
 • 1 tsk. oregano
 • 2 dósir tómatar – saxaðir
 • kjúklingur í bitum (sjá að ofan)
 • Smá hrúga af söltuðu kapers, skolað – ekki klikka á að nota saltað kapers, þetta hefðbundna í edik gerir ekki sama gagn.  Ef þið eigið ekki saltaðan kapers er betra að nota grænar ólívur í staðinn.
 • salt og pipar

Eins og þið sjáið er þetta smá slatti af kryddum en hvað hafið þið annað að gera við eldhússkápana ykkar en að fylla þá af gómsætu kryddi?  En þetta er frekar auðvelt þrátt fyrir langan lista.  Hitið olíu og bræðið smjör og leyfið lauknum að malla í ca. 15 mínútur með sykrinum, allrahanda, kanil og lárviðarlaufi.  Þá bætið þið hvítlauknum saman við og steikið í ca. 5 mínútur.  Þá skutlið þið hvítvínsglasinu út á, bætið við chili, cumin og oregano og leyfið þessu að sjóða aðeins niður, í ca. 5 mínútur.  Þá bætið þið tómötum saman við og leyfið að malla í ca. 15 mínútur.  Þá má bæta við kjúklingnum og söltuðum kapers og hita þetta allt vel í gegn.  Saltið og piprið að smekk og bætið við chili ef þið viljð hafa þetta sterkara.

Það merkilega við þetta að sósan sjálf tók kannski 20 mínútum lengri tíma en þegar maður er að flýta sér að elda vondan mat.  Hvað er ég eiginlega að hugsa á þeim dögum??  Ég legg til þrjár útgáfur við að bera þetta fram:

 1. Hita tortillur og vefja maukinu í það með sterkum rifnum osti og heimagerðu guacamole.
 2. Bera þetta fram í skál yfir hrísgrjón með góðri slettu af sýrðum rjóma ofan á – verður nokkurs konar twist á chili con carne
 3. Setja nokkrar nachos flögur á disk, hlaða það upp með kjúklingnum, rifnum osti, guacamole (heimagerðu, allt annað er bannað) og sýrðum rjóma.
Deila.