Arndís Ósk bloggar: Before and after

Heitelskaður eiginmaður minn reif sig úr bílskúrnum sínum um helgina og eldaði nautasteik með béarnaise sósu og hægelduðum smjörkartöflum.  Ég ákvað að sýna smá lit í eldhúsinu, bjóða Gunnu systur og co. í mat og gera forrétt og desert.

Ég er búin að hugsa af mikill græðgi um geitaost undanfarna daga og hafði gripið mjúkan geitaost úr búð nokkru áður þannig að ég ákvað að búa til crostini með hráskinku og geitaosti í forrétt.  Einnig kom ég við í Frú Laugu og hafði þar keypt rjóma á flösku og nokkra bita af 70% súkkulaði. algjört hágæða ítalskt súkkulaði. Þessu ákvað ég að breyta í súkkulaðimúss.

Forrétturinn hefði orðið meira elegant með smá bita af ferskum fíkjum eða fíkju compote eða jafnvel smá hunangi – til að fá smá sætu í réttinn en ég náði samt að borða hressilega af þessu. Súkkulaðimússið var svo gott og svo nautnalegt að það leið yfir flesta við át.  Spurning um að bjóða bara upp á minna næst eða bjóða upp á ferska ávexti með til að létta aðeins á þessu.

Crostini með hráskinku og geitaosti (fyrir 5)

 • 5 þunnt skornar súrdeigssneiðar (nú var gott að nýta súrdeigshleifinn sem bakaður var fyrr í vikunni, ekki borðar sonurinn af honum)
 • 1 bréf hráskinka – ég notaði Parma skinku en það má nota hvaða skinku sem er nema þetta hræðilega plast sem hér á landi er selt undir nafninu „brauðskinka“
 • 1 rúlla af mjúkum geitaosti – ég er hrifnari af sterkari týpum en hér velur hver eftir sínu höfði
 • gæðaólífuolía
 • salt og pipar
 • graslaukur til að punta

Þetta er frekar auðvelt, brauðsneiðar eru skornar í tvennt, settar á ofnplötu og svo er ólífuolíu sullað yfir.  Ég keypti rosalega góða ólífuolíu í Búrinu í Nóatúni sem er frá Perle di Ponente og ég gæti drukkið hana af stút.  Fyrir utan það að flaskan er falleg og innpökkuð í silfurlitaðan álpappír.  Hér dugar ekki til að vera með eitthvað Filipo Berio dótarí úr Bónus.  Svo skiptum við skinkunni á milli brauðsneiða en betra er að rífa hana en að skera, og svo setjum við ostinn ofan á í bitum.  Pínu meira af olíunni er bætt yfir og svo er þetta sett ofarlega inn í heitan ofn í tæpar 6-8 mínútur þar til osturinn mýkist og hráskinkan verður aðeins stökkari.  Þá er þetta saltað og piprað létt yfir og skreytt með einhverju grænu sem er til taks, ég átti graslauk.  Það væri ekkert verra að bera þetta fram með góðu Sancerre en það hefur minnkað eitthvað af hvítu í vínkjallaranum þannig að ég lét mig bara dreyma um það.

sukkuladimus

 

Súkkulaðimúss í gömlum kaffibollum (fyrir 6)

Ég studdist við uppskrift úr einni af fyrstu bókum Jamie Oliver (The return of the naked chef) en breytti henni lítillega.  Þegar þið skoðið myndina vel þá munið þið örugglega vera sammála henni Gunnu um að framsetning á þessum rétt hefði mátt stórbæta. T.d. með því að strá pínu flórsykri yfir, stinga 1/4 af jarðaberi efst eða eitthvað svoleiðis, en ég er ekki sterk á því sviði og bara sleppi svoleiðis dúlleríi.

 • 280 ml. rjómi
 • 200 gr. 70% súkkulaði
 • 2 eggjarauður
 • 2 matskeiðar Disaronno líkjör (ítalskur möndlulíkjör sem gott er að eiga….alltaf, ef þið eigið ekki slíkt, sem er algjör óráðsía, er hægt að nota brandy eða koníak eða jafnvel smá viskí slettu).  Það er ekki gott að setja mikið meira en 2 matskeiðar en þá fer allt jafnvægi í bragði á hliðina.
 • 20 gr. kalt smjör í bitum

 

Hér þarf aðeins að vanda sig og passa hitastigið.  Hitið rjómann í potti, helst í potti sem er þykkbotna þar til að rjóminn er alveg við það að fara að sjóða.  Takið af hellunni og látið standa í ca. 1-2 mínútur.  Súkkulaðinu er bætt við í bitum og hrært við til að það er vel bráðnað og þetta er farið að líta það vel út að maður verður að smakka.  Þegar súkkulaðið er alveg bráðið inn í rjómann þá má slá saman eggjarauðunum og bæta þeim ásamt líkjörnum við blönduna og þeyta vel (ekki í vél, bara með písk í höndum).  Leyfið þess að standa og kólna lítillega (ekkert meira en 4-5 mín.) og bætið þá smjörinu við í litlum bitum, hrærið vel.

Setjið í litlar skálar, espresso bolla eða litla kaffibollaa og kælið í ca. 1-2 klst.  Þetta þarf ekkert að fara inn í ísskáp þar sem ekki er gott að bera þetta fram kalt en þetta þarf að kólna þannig að þetta sé við stofuhita þegar þetta er borið fram.

Eins og sést af þessum matseðli, þá fórum við líklegast í gegnum 1 kg. af smjöri, sem er nokkuð vel gert fyrir 6 einstaklinga.  Æfing í dag…..

Deila.