Taco Pizza

Það þarf auðvitað ekki að spyrja að því hvaðan hugmyndin að þessari pizzu kemur. Taco og pizza njóta mikilla vinsælda í Bandaríkjunum og auðvitað tilvalið að reyna að splæsa þetta saman í eitt. Útkoman er bara lygilega góð.

Eins og alltaf byrjum við á pizzubotninum. Það er gott að fylgja þessum leiðbeiningum hér.

Áleggið

  • 400-500 g nautahakk
  • 1 bréf Taco-kryddblanda
  • 1 dós Taco-sósa
  • 1 bréf Gratín-ostur
  • grænt salat – t.d. Romaine
  • tómatar, t.d. vel þroskaðir kirsuberjatómatar
  • 1 dós sýrður rjómi 10%
  • 1 lime
  • 1 væn lúka af söxuðum ferskum kóríander.

Hitið ofninn í 225 gráður.

Steikið nautahakkiið í olíu á pönnu. Kryddið með Taco-kryddinu. Fletjið botninn út. Smyrjið Taco-sósunni á hann og dreifið síðan hakkinu yfir. Sáldrið næst ostinum yfir. Bakið pizzuna í um 10 mínútur eða þar til botninn er fullbakaður og osturinn bráðnaður.

Á meðan er salatið saxað og tómatarnir sneiddir niður. Blandið saman við safann úr 1/2 lime og smá sjávarsalti.

Í skál er sýrði rjóminn pískaður saman við safann úr 1/2 lime og um 1 msk af vatni.

Þegar pizzan kemur úr ofninum er salatinu dreift yfir, síðan sýrða rjómanum og loks er söxuðum kóríander sáldrað yfir.

Deila.