Davíð Logi bloggar: Líbanskt Meghlie – tilbrigði við hrísgrjónagraut

Hér kemur uppskrift að líbönskum eftirrétti sem í grunninn er kannski eins konar tilbrigði við hrísgrjónagraut. Sá heitir „Meghlie“ og er raunar fyrst og fremst á boðstólum þegar nýtt barn kemur í heiminn. Hefð er semsé fyrir því að bera „Meghlie“ fyrir móður eftir að hún hefur alið barn og þannig var það til að mynda með okkur, að þegar sonur minn var í heiminn kominn á Ameríska sjúkrahúsinu í Beirút í nóvember 2010, var það fyrsta sem borið var fyrir eiginkonau mína Meghlie í gjafapakkningu. Seinna, þegar heim var komið, kom vinafólk og útbjó þennan rétt fyrir okkur til hátíðabrigða. Hann hefur því ákveðið hlutverk í minningum okkar frá Líbanon-árunum og það jákvætt.

En hvers vegna hefur myndast þessi hefð í Líbanon, að gefa mæðrum Meghlie að fæðingu lokinni? Ég hef út af fyrir sig ekki svar við því. Einhver setti þó fram þá tilgátu að menn hefðu haft þá trú að Meghlie kæmi mjólkurframleiðslu móðurinnar hratt og örugglega af stað. Sel það ekki dýrar en ég keypti það.

Og þá er það innihald réttsins. Þetta er dísætur réttur, góður á bragðið, hentar við mörg tækifæri en kannski ekki öll. Mæli þó sannarlega með því að þið prófið!

Setið einn bolla af hrísgrjónum í pottinn og jafnmikið af sykri. Hrærið svo tveimur teskeiðum af kanil saman við, einni teskeið af kúmeni og einni teskeið af anís (caraway og anisseed, en hvorutveggja fæst í Heilsuhúsinu). Það er ekki verra að skafa pínulítið engifer út í líka. Setið svo sex til sjö bolla af vatni og hitið þar til suðan kemur upp (þó ekki á hæsta hita), lækkið þá hitann. Látið malla í 45 mínútur, hrærið reglulega í þessu, uns grauturinn fer að verða hæfilega þykkur. Varist þó að missa allan vökva úr honum. Hæfilega brúnn litur ætti nú að vera á grautnum.

Nú er komið að lykilatriði en það þarf að mauka þennan graut, til dæmis með töfrasprota. Þá er Meghlie í rauninni tilbúið en þegar skammtað er í skálar er mikilvægt að setja hæfilega mikið magn af mörðum valhnetum, pistasíum eða öðrum hnetum ofan á, ekki bara til að skreyta heldur til að vega á móti sæta bragðinu og svo Meghlie geti staðið undir nafni sem líbanskur eftirréttur.

Deila.