Jerúsalemsalat með möndlum, spínati og döðlum

Stundum dettur maður á niður á uppskriftir sem eru öðruvísi og alveg hreint magnaðar. Þetta er ein af þeim. Hún er byggð á uppskrift úr nýlegri matreiðslubók þeirra Yotom Ottolenghi og Sami Tamimi sem heitir Jerusalem. Þeir koma enda báðir upprunalega  frá Jerúsalem, Ottolenghi er gyðingur, Tamimi Palestínumaður og uppskriftir þeirra unaðsleg blanda af brögðum Miðausturlanda með vestrænu ívafi.

Ottolenghi rekur nokkra samnefnda veitingastaði í London ásamt Tamimi og ritar vikulega dálkinn „New Vegetarian“ í dagblaðið Guardian.

Þetta magnaða salat getur verið máltíð eða meðlæti með margvíslegum mat. Það er gert í nokkrum skrefum:

 • 1 laukur eða rauðlaukur skorinn í mjög þunnar sneiðar
 • 100 g döðlur (reyndust 18 stk hjá okkur)
 • 1 msk hvítvínsedik

Skerið döðlurnar í fernt á lengdina. Sneiðið laukinn niður. Setjið í skál ásamt edikinu og blandið vel saman. Best að nota hendurnar í það. Látið marinerast í um 20-30 mínútur og síið þá edikið frá.

 • 2 pítabrauð
 • 75 g möndlur
 • 1 væn tsk sítrónupipar
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • klípa af sjávarsalti
 • 2 msk smjör
 • 1 msk ólífuolía

Grófsaxið möndlurnar. Rífið píta-brauðin í grófa bita. Hitið olíu og smjör á pönnu og veltið möndlum og pítabrauði um á pönnunni í nokkrar mínútur, þar til að brauðið fer að taka á sig brúnan lit. Ca 5 mínútur. Kryddið þá með salti, sítrónupipar og chili. Í upprunalegu uppskriftinni er gert ráð fyrir kryddi sem heitir Sumac og er algengt í matargerð Mið-Austurlanda. Það er fátítt hér en sítrónupiparinn gerir sama gagn. l

 • spínat (helst baby spinach)
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • ólífuolía
 • salt

Blandið spínatinu og döðlu/laukblöndunni saman við pítabrauðið og möndlurnar. Bætið um msk eða svo af ólífuolíu saman við ásamt sítrónusafanum. Bragðið til með salti – ef þarf. Berið strax fram.

Deila.