Davíð Logi bloggar: Líbanskar döðlukökur – Mamool madd

Líbönsk bakarí selja í reynd fyrst og fremst sætindi, þ.e. baklava og annað þess háttar, dísætar smákökur sem flestir ættu að þekkja en ýmsar tegundir af hnetum leika þar gjarnan aðalhlutverk, s.s. pistasíur og annað af þeim toga. Baklava (sjá mynd hér fyrir ofan) er auðvitað alveg unaðslega gott – en ég hef nú ekki treyst mér til þess að fara að reyna að baka svoleiðis síðan við snerum heim.

Eitt hef ég hins vegar prófað og það er að baka mamool – aðra tegund af kökum sem gjarnan eru á boðstólum í bakaríunum. Þær eru nokkuð fjölbreytilegar – hið hefðbundna mamool hefur að geyma valhnetur eða pistasíur í fyllingu en ég hef ég leikið mér að því að búa til mamool madd, sem er einföld döðlukaka.

Mammoul madd

 

Notast er við semólínu fremur en hveiti en semólínu má kaupa í Heilsuhúsinu eða hjá Tyrkneskum bazar í Síðumúla. Hjá Tyrkneskum bazar er hægt að fá bæði grófa og fína útgáfu af semólínu og það er sú fína sem skal brúkast hér – en ég játa hins vegar að ég sé ekki í fljótu bragði mikinn mun á fínni og grófri.

Semsé – 300 grömmum af fínni semólínu er blandað saman við eina teskeið af þurrgeri. Við þetta skal bæta 180 grömmum af bræddu smjöri sem og einni teskeið af rósavatni, sem fæst hjá Tyrkneskum bazar, og ofurlitlu magni af kreistum appelsínusafa. Blandið vel saman með höndunum. Mikilvægt er að deigið verði vel rakt. Hyljið nú deigið og geymið í sólarhring eða svo.

Þegar hafist er handa við baksturinn að nýju er gott að byrja á því að hita bakarofn vel upp, í 180 gráður. Smyrjið bökunarform að innan með smjöri. Takið svo hátt í poka af góðum döðlum og maukið vel í töfrasprota, bætið ofurlitlu sjóðandi vatni saman við, kannski um 50 ml., til að mýkja fyllinguna aðeins. Takið nú semólínudeigið og skiptið til helminga og setjið annan hlutann í botn bökunarformsins og þrýstið deiginu vel niður og jafnið út. Setjið því næst döðlufyllinguna ofan á og drefið vel úr henni en síðan kemur afgangurinn af deiginu ofan á.

Bakið í ofni í um þrjú kortér eða uns fallegur gullinn litur er kominn á kökuna. Mikilvægt er að leyfa kökunni að kólna vel áður en hún er skorin því semólínan er svo gróf að kakan hefur tilhneigingu til að molna mikið ella. Það er engin hefð fyrir því í Líbanon að þeyta rjóma til setja á þessa einföldu en alveg ágætu köku en það má auðvitað alltaf staðfæra hlutina og breyta pínulítið. Að minnsta kosti bragðaðist kakan ágætlega með þeyttum rjóma!

 

 

 

 

Deila.