Haukur Leifsson bloggar: Hýr og Ástríkur

Nú þegar líða tekur á sumarið má gera ráð fyrir að fleiri árstíðabundnir bjórar fari að líta dagsins ljós, sérstaklega á haustmánuðum.
Borg ríður á vaðið eftir smá hlé með frábæran bjór sem þeir nefna Ástrík. Ástríkur er að belgískri fyrirmynd og er kenndur við Gay Pride.
Bjórinn er fallegur í glasi, gullinn með örlitla froðu. Hann er mikill í nefi, með blómlegri angan sem minnir einna helst á þurrkaða ávexti, blóm og sæta köku. Hann er stór um sig, eða um 10% í áfengismagni en á tungu finnst það lítið. Hann er afar sætur og minnir einna helst á ferskan eftirrétt með keim af ávöxtum eins og t.a.m. ferskjum.
Síðasti belgíski bjórinn sem bruggaður var hjá Borg var hinn frábæri páskabjór Júdas. Ástríkur er hress og gefur Júdas ekkert eftir. Það er augljóst að þeir Sturlaugur og Valgeir, bruggmeistarar Borgar, kunna að gera afar vel heppnaða belgíska bjóra.
Það er afar ánægjulegt að þessi bjór sé kenndur við réttindabaráttu og hátíð samkynhneigðra. Hátíðahöld kalla oft á góðar veigar og því er skemmtilegt að svona stór bjór sé kenndur við eina skemmtilegustu hátíð ársins.
Deila.