Hallveig bloggar: kjútlíngurinn hans Tobbatenórs

Þegar ég var barn átti ég vinkonu úr Hafnarfirði sem sagði alltaf kjútlingur í staðinn fyrir kjúklingur. Hún hélt því statt og stöðugt fram að þessi framburður væri sér-hafnfirskt fyrirbæri en síðan hef ég kynnst ógrynni af Hafnfirðingum sem bera nafn þessa fiðurfés ósköp venjulega fram.

Nú er bróðir minn (téður Tobbitenór) fluttur í fjörðinn fagra og því finnst mér tilvalið að skíra þessa færslu hinu „hafnfirska“ nafni enda uppskriftin stolin frá honum, með einni smá breytingu frá mér. Þessi ofnbakaði kjúklingur með grænmeti er í sérstöku uppáhaldi hér á bæ og er alltaf reglulega á borðum, enda drjúgur með endemum og dugar fjölskyldunni vel tvisvar í matinn. Athugið að nauðsynlegt er að eiga góðan ofnpott með loki til að elda þennan rétt.

Haustið er rétti tíminn til að elda svona mat, enda búðirnar smekkfullar af dásamlegu rótargrænmeti. Ég mæli þó með að fólk geri sér ferð í Bændamarkað frú Laugu og næli sér þar í ítalskan lauk og hvítlauk sem er bæði ferskari og bragðbetri en sá í stórmörkuðunum. Að sjálfsögðu má þó vel nota Bónus-keyptan lauk!

Hér er uppskriftin:

  • heill kjúklingur, helst frekar stór
  • 1 sítróna
  • 20-30 hvítlauksrif, afhýdd
  • 2 gulir laukar
  • 2 rauðir laukar
  • 3 stórar bökunarkartöflur
  • 5-6 gulrætur
  • meðalstór sæt kartafla
  • góð ólífuolía
  • maldonsalt og nýmalaður pipar
  • ras el hanout kryddblanda ( ef fólk nennir ekki að blanda hana sjálft fæst hún víða, t.d. í Nóatúni og Melabúðinni, úr marokkósku línunni Al fez)

Byrjið á að hita ofninn í 200°c. Afhýðið hvítlaukinn og raðið í botninn á stórum ofnpotti. Makið ólífuolíu á fuglinn, og kryddið duglega með salti, pipar og ras el hanout. Þrífið sítrónuna (gott að skrúbba hana aðeins með grænmetisbursta til að losna við vax og eiturefni) og skerið djúpar raufar í hana hér og þar, troðið svo sítrónunni inn í fuglinn og lokið fyrir, annað hvort með skinninu af fuglinum eða með snæri. Leggið svo kjúklinginn ofan á hvítlaukinn í pottinum, setjið lokið á og inn í ofn. Stillið ofnklukkuna á 30 mínútur.

Afhýðið nú kartöflur, gulrætur og lauka og skerið í grófa bita. Veltið upp úr 2 msk af olíu og saltið með maldon. Þegar hálftíminn er liðinn látið grænmetið í kring um fuglinn, setjið aftur í ofninn og stillið aftur á hálftíma.

Afhýðið nú sætu kartöfluna og skerið hana í grófa bita, veltið úr olíu og salti. Þegar hálftími nr. 2 er liðinn, bætið þá sætu kartöflunni saman við hitt grænmetið í kring um fuglinn. Leyfið þessu að malla í ofninum í síðasta hálftímann, seinna korterið með lokið af svo fuglinn taki lit. Þá er líka tilvalið að henda hvítlauksbrauði með í ofninn, það passar ljómandi vel við.

Þegar fuglinn er tilbúinn setjið hann þá á fat og grænmetið í skál og leyfið kjötinu að jafna sig í nokkrar mínútur áður en borðað er.

Deila.