Arndís Ósk bloggar: Hafrabrauð frá Jane Brody – Lágkolvetna umræðan jörðuð

Ég hef sagt ykkur áður frá Jane Brody´s Good Food book sem er yfir 20 ára gömul og ég nýti mikið. Hún hvetur okkur til að taka við þeim heilaga boðskap að kolvetni séu okkur holl og góð og maður geti horast þvílíkt með því að bæta almennilegum kolvetnum við matarræði okkar, .þar hafið þið það!  Súrinn minn dó í vikunni og á meðan ég er að verða mér úti um nýjan og byggja hann upp , þá er lítið annað í stöðunni en að baka brauð með geri eða lyftidufti.  Ég hnoðaði því í brauð sem ég bakaði oft þegar ég var búsett í Bandaríkjunum og hryllti við að geta keypt brauð sem var hvítt og mjúkt í rúmlega 6 vikur.

Upprunaleg uppskrift er svakalega stór, 3 stórir hleifar, sem ég var búin að steingleyma og myrti því næstum Kitchen Aid hrærivélina mína.  Ég minnka hana fyrir ykkur og aðlagaði og þið ættuð að fá í 2 stóra hleifa úr þessari uppskrift.  Ekki láta hugfallast yfir löngum innihaldslista, hann borgar sig:

 • 1/3 bolli volgt vatn

 • 3 tsk. þurrger

 • ½ tsk. sykur

 • ¼ tsk. þurrkað engifer

 • 2 bollar haframjöl (ekki grófir hafrar, bara þetta venjulega haframjöl sem við þekkjum úr hafragraut)

 • 2 ¼ bollar sjóðandi vatn

 • 3 msk. smjör

 • ¼ bolli hunang

 • 2 tsk. salt

 • 1/3 bolli rúgmjöl

 • 1 bolli heilhveitimjöl

 • 3-4 bollar hvítt hveiti

 

Aðferð:

 • Hrærið saman volga vatninu, þurrgeri, sykur og engifer og leyfið að gerjast og búbla svolítið.

 • Í annarri skál skal blanda haframjöli, sjóðandi vatni, smjöri, hunangi og salti saman.  Blandið vel og leyfið því að kólna aðeins.  Ekki freistast til að borða grautinn en þetta er hinn besti hafragrautur.

 • Bætið saman rúgmjöli, heilhveiti og gerblöndunni og látið hrærivélina borga sig upp með því að vinna og blanda þessu vel saman.

 • Bætið hvítu hveiti við hálfan bolla í einu þar til að deigið losast frá skálinni.

 • Hnoðið í ca. 6-8 mínútur með hvíta hveitið við höndina þar til að þið hafið góða og teygjanlega kúlu sem er ekki of klístruð þegar þið komið við hana.  Ég hef gaman að því að hnoða deig aðeins í höndum á þessu stigi, það bindur þetta betur saman en stundum hef ég látið vélina alveg um þetta.

 • Setjið kúluna í olíusmurða skál með viskastykki yfir og látið það hefast á hlýjum stað (a.m.k. ekki við opinn glugga) í ca. einn og hálfan tíma.  Deigið tvöfaldast að stærð á þessum tíma.

 • Berjið í kúluna (ég veit eiginlega ekki hvaða bökunarlegu áhrif það hefur, það er í það minnsta skemmtilegt) og skiptið henni í 2 jafnstóra hluta.  Mótið þá í þá lögun sem þið viljið og látið hefast aftur í ca. einn og hálfan tíma eða þar til það hefur tvöfaldast aftur í stærð.  Gott er að setja deigið á hveitistráða plötu og leyfa því að kúra aftur undir viskastykki.

 • Bakið í 180 gr. heitum ofni í 40 mínútur, en gott er að stingja prjóni í ef þið eruð efins.  Leyfið að kólna vel áður en þið skerið í það.

 

Það sem kom mér á óvart var hversu miklu minna mál það er að gera súrdeigsbrauð.  Þar er maður að gera pínu pons í einu í ca. 2 daga og svo er bakað, hviss bang.  En þegar hefðbundið gerbrauð er bakað þá er allt að gerast á einum og sama deginum. Maður er eitthvað að snudda í þessu á rúmlega klst. fresti á einum degi, sem er reyndar nokkuð kósí.  Þannig að bakið gerbrauð ef þið eruð í eldhússtuði, annars komið þið ykkur upp súr eða bakið brauð með lyftidufti.

Annað sem er ágætt að minnast á er að ger er eitt af þessum efnum sem hefur ekki góðan almannatengil.  Þetta virðist vera efni sem er í sama flokki og asbestos í almennri umræðu og fólki er iðulega sagt að sneiða hjá því.  Ekki þekki ég það en mín reynsla er sú að heimabakabrauð virðist geymast lengur og fara betur í maga en þau brauð sem keypt eru í stórmörkuðum.  Ég verð a.m.k. ekki uppþembd af heimabökuðu brauði.  Skilaboðin eru því, bakið brauð og borðið þau.

Deila.