Hildigunnur bloggar – Lambabógur frá Marokkó

Þessi marokkóski réttur er í miklu uppáhaldi hér á bæ. Við erum eiginlega hætt að elda lambabóg á neinn annan hátt.

Þetta er hvorki dýrt né snúið, en maður þarf að hafa tímann fyrir sér því kjötið tekur góða stund í ofninum. Má líka standa yfir nótt í marineringunni þó við nennum því sjaldnast.

1 lambabógur, um 2 kíló
150 grömm smjör, mjúkt
1 tsk salt
1 tsk mulinn svartur eða hvítur pipar
1 msk cumin
vatn

Fitusnyrtið kjötið. Blandið saman mjúku smjörinu og kryddinu og makið kjötið með því. Vefjið síðan bóginn í álpappír, eins þétt og þið getið. Leyfið að standa í amk. klukkutíma (við stofuhita) eða yfir nótt í ísskáp.

Hitið ofninn í 180°C.

Þegar marineringu er lokið setjið bóginn í stórt eldfast fat með loki, leyfið að ná stofuhita ef það var í ísskáp. Ekki taka álpappírinn af. Hellið könnu af vatni yfir, (ég nota yfirleitt 1/2 lítra). Setjið fatið í ofninn og leyfið að steikjast í 2 1/2 klukkustund. Takið síðan álpappírinn af og lokið af fatinu, setjið aftur inn í ofninn og leyfið að brúnast í hálftíma til. Gott er að athuga hvort kjötið er tilbúið með því að snúa beininu örlítið, það á að losna auðveldlega frá kjötinu. Ef það gerist ekki, hafið þá kjötið lengur inni.

Meðan kjötið er í þessum síðasta fasa, undirbúið meðlætið:

300 g basmati hrísgrjón
600 ml vatn
50 g pistasíur án skelja
6 negulnaglar
50 g smjör
1/2 tsk engiferduft
1/2 tsk kanill
1/4 tsk múskat
50 g möndlur án hýðis, léttristaðar og gróft saxaðar
30 g rúsínur lagðar í bleyti smástund
2 stórir laukar, niðursneiddir og steiktir þar til gullinbrúnir
1 msk hunang

Skolið hrísgrjónin vandlega til að losna við sterkjuna (ekki nauðsynlegt ef maður nennir því ekki). Setjið í pott ásamt vatninu, lok á pottinn, komið upp suðu og lækkið. Sjóðið við lægsta hita í 12 mínútur og slökkvið síðan undir. Ekki opna pottinn á meðan á suðu stendur.

Á meðan grjónin sjóða, steikið laukinn í smá smjöri, setjið til hliðar, hakkið möndlurnar gróft. ristið möndlur og pistasíur á pönnu í 1-2 mínútur, Myljið negulnaglana (best í stóru mortéli), setjið á pönnuna og steikið í smástund í viðbót. Þá er smjöri og kryddi bætt á pönnuna og blandað vel saman, síðast er lauk, hunangi og rúsínum blandað saman við. Slökkt undir hellunni, lok sett á pönnuna og leyft að standa í 5-10 mínútur.

Hrísgrjónin ættu nú að hafa sogið í sig allt vatn. Hrærið í þeim með gaffli og setjið síðan lauk- og pistasíu/möndlublönduna saman við og blandið vel saman.

Berið fram með lambinu og soðinu úr fatinu (gott að fleyta mestu feitinni ofan af soðinu, það er vel feitt).

Deila.