Hildigunnur bloggar: Oeufs á la Dijonnaise (eða egg frá Dijon)

Þessi forréttur er nýi uppáhalds hér á bæ. Franskt þema í matarboði um daginn og þá er upplagt að bjóða upp á svonalagað.

Fyrir sex:

6 egg, harðsoðin
salt og nýmalaður svartur pipar
2 msk Dijon sinnep
1 skalottulaukur, smátt saxaður
2 tsk ferskar kryddjurtir, saxaðar – t.d. esdragon, kerfill, steinselja
2 msk rjómi (helst súperfeitur en hann fæst því miður ekki svo glatt hér)
60 g smjör (um 4 msk)
örlítið hvítvínsedik, kryddmál eða svo
2 msk saxaður graslaukur (ef vill)

Hitið ofninn í 220°C
Skerið eggin í helminga langsum. Takið eggjarauðurnar varlega úr hvítunum, stappið saman við salt, pipar,lauk og kryddjurtir. Ekki nota þurrkaðar kryddjurtir, ef þið eigið ekki annað þá bara ferska steinselju. Hrærið rjómanum saman við að síðustu.

Fyllið eggjahvítuhelmingana með blöndunni. Leggið í ofnfast fat. Bræðið smjörið og hellið ediksslettunni saman við. Dreypið yfir eggin.

Bakið í 10 mínútur. Stráið graslauknum yfir ef notaður og berið fram heitt.

Deila.