Hallveig bloggar: Vitello alla parmigiano eða kálfur í parmesanfötum

Í hinni frábæru mynd Forget Paris er aðalkvenpersónan Ellen að gefast upp á eiginmanninum Mickey af mörgum ástæðum. Ein þeirra er að hann neitar að panta nokkurn einasta rétt á veitingastöðum nema Veal Parmigiano.

Eftir að hafa horft ótal sinnum á myndina sem unglingur var því ekkert sem kom til greina þegar ég rakst í fyrsta skipti á kálfasnitsel í kjötborði en að elda þennan rétt. Þetta er einn af þessum „ítölsku“ réttum sem voru fundnir upp í ítalska hverfinu í New York, little Italy.  Þannig er engin hefð fyrir honum á Ítalíu, en hann bragðast svo sannarlega eins og hann sé ættaður frá fyrirheitna landinu fagra í suður-Evrópu.

Ég fann heilmargar uppskriftir til að byrja með og hef þróað réttinn til að falla að okkar smekk í gegn um árin. Athugið að í stað dósanna tveggja mætti vera ein flaska passata, en þá þyrfti að auka sykur, salt og piparmagn. Hér er hann sumsé eins og hann kom af kúnni í kvöld.. eða réttara sagt kálfinum. Uppskriftin passar fyrir fjóra, frekar svanga:

Kálfurinn:

 • 500 gr kálfasnitsel
 • 1 egg
 • 1/2 bolli brauðrasp
 • 1/2 bolli parmigiano reggiano, rifinn
 • maldon salt og nýmalaður pipar
 • smjörklípa og góð ólífuolía
 • 1 stk mozzarella ostakúla

Sósan:

 • 1 gulur laukur, fremur smátt saxaður
 • 3 hvítlauksrif, marin
 • 1 dós saxaðir tómatar
 • 1 dós tomato sauce (t.d. frá Hunts, ath hér er EKKI átt við ketchup!)
 • 1 glas rauðvín
 • 3 góðar greinar ferskt timian, eða 1/2 tsk þurrkað
 • 1/4 tsk sykur
 • smjör og góð ólífuolía
 • Maldon salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

hitið smjörklípu og olíuslettu í þykkbotna potti, skerið niður lauk, merjið hvítlauk og takið blöðin af timiangreinunum. Látið laukinn, hvítlaukinn og kryddið malla við lágan til meðalhita í 10 mínútur.

Bætið tómötunum, tómatsósunni og rauðvíninu út á pönnuna, kryddið með salti, pipar og sykri. Leyfið sósunni að malla við lágan hita í 20 mínútur að lágmarki, helst lengur.

Á meðan sósan mallar þarf að huga að kjötinu.

Hitið góðan slatta af smjöri á pönnu með ögn af olíu saman við svo það brenni ekki. Blandið saman brauðraspi og parmigiano,í djúpum diski,  saltið og piprið. Hrærið eggið á öðrum diski. Veltið kálfasnitselinu svo fyrst upp úr egginu og svo ostaraspinu. Brúnið vel við meðalhita á hvorri hlið og setjið svo sneiðarnar á eldfast fat. Skerið mozzarella ostinn í sneiðar og setjið eina sneið á hvern kjötbita.

Þegar sósan er tilbúin, hellið henni yfir kjötið og bakið í ofni við 200° í 30 mínútur. Gott er að baka kartöflubáta með og hafa ferskt salat. Eins mætti hafa t.d. tagliatelle með réttinum.

Með þessu drukkum við ljómandi gott rauðvín, Baroncini Vino Nobile di Montepulciano, ekki of dýrt (enda mánudagur) en með ljúfri fyllingu sem átti vel við kálfinn

Deila.