Pasta með rósakáli, valhnetum og beikoni

Rósakál er oftast notað sem meðlæti með kjöti. Það er hins vegar hægt að gera ýmislegt úr því. Þetta pasta er lygilega gott og við mælum með því að nota ítalskt pancetta í staðinn fyrir beikon en það fæst t.d. í ostaborðinu í Hagkaup í Kringlunni.

 • 500 g pasta (t.d Tagliatelle, Penne eða Spaghetti)
 • 3-400 g rósakál
 • 100 g beikon (eða pancetta)
 • 8 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • 1 rósmarínstöngull
 • 1 tsk chiliflögur
 • 1 lúka valhnetur
 • safi úr hálfri sítrónu
 • Parmesan-ostur
 • smjör og olía
 • salt og pipar

Skerið  endana af rósakálinu og takið af ystu blöðin. Saxið niður. Skerið beikonið í bita.

Hitið smjör og olíu á pönnu og steikið beikonbitana og rósmarín í 1-2 mínútur. Bætið hvítlauk og chiliflögum út á og steikið áfram i 2-3 mínútur. Bætið þá rósakálinu út í og steikið áfram í nokkrar mínútur. Hrærið vel í á meðan. Saltið og piprið. Kreistið sítrónusafann yfir og blandið vel saman.

Sjóðið pasta.  Ristið valhneturnar í 180 gráða heitum  ofni í nokkrar mínútur þar til að þær byrja að dökkna. Blandið pasta saman við rósakálið á pönnunni.  Grófmyljið hneturnar og blandið saman við. Hellið smá af góðri ólífuolíu yfir og berið fram með rifnum Parmesan-osti.

Deila.