Hallveig bloggar: hvað boðar nýárs blessaður humar?

Ég bý svo vel að þurfa aldrei að elda á gamlaárskvöld því stórveisla fjölskyldunnar, matarboðið hjá Hildigunni systur og sambloggara er alltaf haldin það kvöld. Þá er öllu tjaldað til enda þau hjón stórtækir höfðingjar heim að sækja.

Ég er því alltaf í miklu kokkastuði á nýársdag og elda eitthvað rosagott ofan í fjölskylduna og foreldra mína. Í kvöld varð fyrir valinu humar með mangó/avocadosalsa og hreindýr með sveppamauki, gljáðum vorlauk, ofnsteiktum kartöflum og púrtvínssósu. Uppskriftin af Rúdolf kemur seinna, en hér kemur humarinn:

Ég hafði keypt stórglæsilegan humar í uppáhaldsfiskbúðinni minni, Hafberg við Gnoðavog. Þeir eru svo sniðugir að selja manni humarinn í stykkjatali sem er sérstaklega þægilegt. Ég hef bara aldrei séð annan eins humar og þennan, risastóran og pattaralegan.

Uppskriftin er einföld. Humrinum er vippað upp á skelina, þá er skelin klippt að endilöngu og humarinn veiddur upp úr og lagður ofan á samanlagða skelina undir. Humrunum var svo raðað þétt í eldfast fat. Ég (eða reyndar aðstoðarkokkurinn maðurinn minn) hafði hrært saman svolitlu linu smjöri við einn kreistan hvítlauksgeira og góðan slatta af niðursaxaðri steinselju og fór góð klípa af smjörinu á hvern hala.

Humarinn er svo bakaður við 180° í uþb 10 mínútur, styttra ef hann er smærri en þessi sem við vorum með.

Á meðan humarinn var í ofninum söxuðum við smátt vel þroskað mangó saman við mátulega stinnt og fallegt avocado, hrærðum því saman og klipptum svolítið ferskt kóríander yfir. Smáhrúga af sölsunni var svo settur á hvern disk og þremur humarhölum raðað ofan á.

Þá kom rúsínan í pylsuendanum, ofan á hvern hala fóru nokkrir dropar af sweet chili sósu og nokkur saltkorn.

Berið fram með nýristuðu brauði og smjörbráðinni úr eldfasta fatinu.

Deila.