Litríkt Farro-salat með kóríanderdressingu

Farro er forn ítölsk korntegund sem nýtur nú mikilla vinsælda vegna eiginleika sinna, bragðs og hollustu. Það er hægt að fá farro í nokkrum verslunum, s.s. Frú Laugu og Kosti en einnig er hægt að skipta því út fyrir bygg. Fleiri uppskriftir með farro má finna hér.

 • 3 dl Farro/bygg
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 1 mjög lítill rauðkálshaus
 • 1 búnt vorlaukur
 • 3 gulrætur
 • 1 sítróna, rifinn börkur
 • 1 dl graskersfræ

Skolið farro vel. Setjið í pott ásamt 1,2 lítrum af vatni og grænmetiskraftinu. Sjóðið á miðlungshita þar til að farro er fullsoðið (það á enn að vera svolítið fast undir tönn). Síið vatn frá ef þarf. Geymið og leyfið að kólna aðeins.

Saxið niður rauðkálið, það er fljótlegast að gera í matvinnsluvél. Rífið gulræturnar á rifjárni. Saxið vorlaukinn smátt. Skolið sítrónuna og rífið börkinn á rifjárni. Ristið graskersfræin á pönnu þar til þau fara að „poppa“.

Blandið grænmetinu og sítrónuberkinum saman í stórri skál. Saltið og piprið.

Þá er komið að því að gera dressinguna

Kóríander-vinaigrette

 • 1,5 dl ólífuolía
 • safi úr einni sítrónu
 • 1 búnt kóríander
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 1 væn msk Dijon-sinnep
 • 1 væn msk hunang
 • salt og pipar

Setjið allt nema olíuna í matvinnsluvél og maukið. Bætið olíunni smám saman út í. Bragðið til með salti og pipar.

Blandið farro saman við grænmetið. Blandið kóríander-vinaigrette saman við. Ef þið notið ekki alla dressinguna er kjörið að geyma hana í ísskáp og nota á salöt af ýmsu tagi.

 

Deila.