Kartöflusalat getur verið svo unaðslega gott og fátt getur keppt við vel heppnað kartöflusalat með grillsteikinni. Í þessu salati notum við fullt af ítölsku hráefni, sólþurrkaða tómata, grillaðar paprikur og flatlaufa steinselju.
Prufið þetta salat t.d. með balsamikmarineraðri ribeye-steik.
Fyrsta skrefið í kartöflusalatinu er auðvitað að sjóða kartöflurnar en við þurfum:
- 1 kg kartöflur
- 1-2 msk hvítvínsedik
- safi úr 1/2 sítrónu
- salt og pipar
Sjóðið kartöflurnar. Skerið í bita/sneiðar og setjið í skálina sem þið ætlið að nota. Hellið hvítvínsediki og sítrónusafa yfir. Saltið varlega og piprið og leyfið að kólna.
- 1 laukur
- 1 dós grillaðar paprikur
- 10 sólþurrkaðir tómatar
- 1 búnt flatlaufa
- 2 egg harðsoðin
Saxið laukinn og steinseljuna, skerið paprikur og sólþurrkaða tómata í strimla, sneiðið eggin niður.
Nú þarf næst að píska saman dressinguna
- 1 dós sýrður rjómi
- 3 msk heimatilbúið majonnes
- 1-2 msk Dijon-sinnep
Setjið í skál og pískið saman með gaffli.
Loks eru öllu blandað vel en varlega saman. Setjið í ísskáp og geymið í nokkrar klukkustundir. Þeim mun lengur, þeim mun betra verður salatið. Langbest ef þið náið að geyma það yfir nótt en 2-3 klukkutímar duga alveg.