Banana Split með heitri súkkulaðisósu

Banana Split vekur alltaf lukku hjá öllum.  Væntanlega kemur það fæstum á óvart að þessi réttur skuli fyrst hafa skotið upp kollinum í Bandaríkjunum. Um þar síðustu aldamót voru gosvélar eða „soda fountains“ farnar að ryðja sér til rúms þar sem kolsýra var notuð til að búa til sódavatn og kæla bæði drykki og ís. Slíkar vélar var af einhverjum ástæðum gjarnan að finna í apótekum vestanhafs og er uppgangur lyfjakeðjunnar Walgreens m.a. rakinn til vinsælda gosvélanna þar á fyrri hluta síðustu aldar.

En það var einmitt í litlu apóteki í smábænum Latrobe í Pennsylvaníu sem að einn apótekarinn fór að gera tilraunir með ísana eða sundaes eins og það var kallað þegar ís úr vél var settur í einhvers konar skál og borinn fram með súkkulaðispæni, hnetum eða öðru. Árið 1904 kynnti hann til sögunnar nýjan, nokkuð dýrari lúxus-sundae þar sem banani skorinn í tvennt var borinn fram með þremur tegundum af ís og rjóma. Enn í dag er það helst stolt bæjarins Latrobe að vera upprunastaður Banana Split.

Hér er okkar útgáfa af þessum klassíska rétt. Það sem þarf er:

 • Bananar
 • Þeyttur rjómi
 • ís
 • Súkkulaði „fudge“ sósa
 • Skreyting. (hægt að skreyta með hverju sem þið viljið)

Byrjum á sósunni.

 • 2 msk sykur
 • 1 msk ljóst síróp
 • 1/2 dl dökkt kakó
 • 1/2 dl púðursykur
 • 2 dl rjómi
 • klípa af salti
 • 1,5 dl súkkulaðibitar
 • 15 g smjör
 • nokkrir vanilludropar

Setjið sykur, púðursykur, kakó og salt í lítinn pott. Hrærið saman. Pískið rjóma og síróp saman við. HItið upp að suðu og látið sjóða í um hálfa mínútu. Takið af hitanum og hrærið súkkulaðibitum og smjöri saman við þar til að súkkulaðið og smjörið hefur bráðnað. Blandið loks vanilludropunum út í.

Það er líka hægt að nota fudge-sósuna sem má finna hér eða Marssósuna.

Skerið banana í tvennt langsum. Setjið á disk. Setjið nokkrar kúlur af ís ofan á, t.d. vanilluís, jarðarberjaís og súkkulaðiís. Setjið þeyttan rjóma ofan á. Hellið súkkulaðisósu yfir og skreytið með litríku kurli, muldum hnetum eða ristuðum möndlum, kokteilberjum eða öðru sem ykkur dettur í hug.

 

Deila.