Hallveig bloggar: heit kirsuberjasósa

Ég legg ekkert sérlega mikið upp úr eftirréttum, ég er yfirleitt svo upptekin af þessu ósæta þar sem það er í uppáhaldi hjá mér, get dundað mér lengi yfir forréttum og aðalréttum og nenni yfirleitt ekkert að dekstra of mikið við eftirréttinn, geri í mesta lagi íssósu út á einhvern lúxus-ís úr Laugu.

Í kvöld var íssósan samt það mikil snilld að mér finnst hún eiga heima hér. Ég bjó svo vel að hafa fundið stóran pakka af kirsuberjum í Melabúðinni sem kröfðust þess ekki að ég sagaði af mér hægri handlegginn til að greiða fyrir þau. Gallinn (og líklegast ástæðan fyrir góða verðinu) var að þau voru í það þroskaðasta. Ég japlaði þó á nokkrum berjum síðastliðin tvö, þrjú kvöld en í dag voru þau alveg komin á síðasta snúning.

Ég hafði ákveðið sökum arfaslapps veðurlags að hafa góðan mat, pönnusteikti humar með tilheyrandi og fannst því tilvalið að bjóða upp á desert og ákvað því að gera sósu úr afgangsberjunum. Fátt finnst mér betra út á ís en heit berjasósa og þar eru kirsuberin fremst í flokki.

En nóg blaður, hér kemur sósan:

  • 250 gr þroskuð kirsuber
  • 1 msk smjör
  • 2 msk sykur
  • 2 msk vatn
  • 1 msk púrtvín
  • 1 tsk maizenamjöl
  • 1 tsk sítrónusafi

Takið stönglana af berjunum, helmingið þau og takið steininn úr. Setjið í pott og dembið hinu hráefninu saman við. Látið suðuna koma upp við meðalhita og leyfið blöndunni að sjóða í 3 mínútur, hrærið af og til. Lækkið hitann og leyfið blöndunni að malla áfram í 3 mínútur í viðbót eða svo.

Kælið sósuna ögn áður en þið berið hana fram, þessa sósu má nota á ís, á kökur, skyr eða jógúrt. Hún væri örugglega hreint frábær með grískri jógúrt og múslí.

 

 

 

 

Deila.