Haukur bloggar:Gréta – fyrsti haustbjórinn

Haustið er boðberi góðra tíðinda þegar það kemur að bjór. Flest íslensku brugghúsin koma með haustbjóra og það besta er að flest þeirra eru hætt að ríghaldaí þá hefð að brugga einungis lager bjór sem kenndur er við Októberfest.

Borg Brugghús hafa þó haft þá hefð að brugga lager bjór á haustinn en vilja gera hann ögn ævintýralegri en gengur og gerist. Baltic Porter er flott afbrigði af lager bjór. Þrátt fyrir að hér sé um porter að ræða að nafninu til að þá er hann frábrugðinn Myrkva frænda sínum sem Borg brugga allan ársins hring. Hér er um undirgerjaðan bjór að ræða og hann er því fræðilega ekki öl heldur lager. Hér er malt og korn í aðalhlutverki og það ber engan að undra að baltneskur porter eigi rætur að rekja til þjóða sem hafa verið duglegar að brugga lager bjóra. Lönd eins og Eistland, Lettland, Litháen, Pólland og Rússland eru þjóðir þar sem lager bjórs hefðin er mikil.

Gréta ber glasið vel. Hér er um dökkan bjór að ræða, hann er dökkbrúnn að lit með litlum ljósum haus. Í nefi má greina rist, brauð, hnetur og jafnvel örlítið morgunkorn. Á tungu er bjórinn þéttur, beiskja er í meðallagi og örlitla sætu má greina með ristuðu brauði í endann. Vel heppnaður Baltic Porter.

Gréta er tiltölulega áreynslulítil en gefur afar gott bragð. Það má því segja að þessi bjór höfði jafnt til bjórnörda og þeirra sem vilja aðeins feta sig áfram í bjórsmakki. Enginn verður fyrir vonbrigðum með Grétu.

Deila.