Jóla Brennivín

Það má segja að allt frá árinu 1935 hafi Brennivín skipað stóran sess í áfengissögu Íslands. Þessi drykkur úr kornspíra og kryddum er í dag ekki bara eitt elsta íslenska vörumerkið í hillum ÁTVR heldur er það einnig orðið afar vinsæl útflutningsvara.

Nýjungagirni Ölgerðinnar hefur verið mikil undanfarin ár. Mikil gróska hefur verið í ölgerð hjá fyrirtækinu, til að mynda með tilkomu Borg brugghúss árið 2011. Það er einmitt hugvit frá brugghúsinu sem kemur að jólaútgáfu Brennivínsins.  Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari, hafði yfirumsjón með gerð Brennivínsins og nýtti í það bæði sérrí- og búrbontunnur. Í hverri flösku er um að ræða annars vegar Brennivín af búrbon tunnum og hins vegar Brennivín af sérrí tunnum, báðar tunnur í sex mánuði. Það þarf varla að taka fram að hér er um afar takmarkað upplag að ræða. Þar sem Brennivín er með afgerandi bragð nú þegar að þá er spennandi að vita hvað þroskun Brennivínsins á tunnunum gerir fyrir bragðið.

Vínotek smakkaði drykkinn, bæði við stofuhita og svo einnig kældan en afar áhugavert var að bera saman hvernig brennivínið smakkaðist við þessi mismunandi hitastig. Í glasinu sem var borið fram við stofuhita var talsverður hiti. Hið einkennandi kúmen angan er mest áberandi í nefi sem og spritt tónar en undirliggjandi má einnig finna búrbon, kókos og pipar. Á tungu er talsverður hiti og kryddin ráða ferðum með örlitlum bruna. Í eftirbragði kemur eikarkemur sem einkennist af búrboni, örlítilli vanillu og bruna. Kaldara glasið hleypti sérríinu örlítið meira upp. Í nefi er eikin einnig meiri en í volgara glasinu. Sérrítónar með vanillu, korni, kúmeni og kryddum má auðveldlega finna. Á tungu er meiri mýkt en í volgara glasinu en þó með talsverðum bruna en engu að síður flóknum tónum úr eikinni.

Þessi tilraun er afar skemmtileg og mun eflaust kynna gamlan drykk fyrir nýrri kynslóð. Gamall drykkur fer í glænýjan og spennandi búning. Framleiðandi stingur uppá pörun með síld eða reyktu kjöti og það er eflaust áhugaverð pörun.

Deila.