Guado al Tasso Vermentino 2013

Guado al Tasso er eitt af vínhúsum markgreifans Antinori. Það er staðsett í Bolgheri við vesturströnd Toskana og er þekktast fyrir rauðvínið, sem er eitt af þekktustu Súper-Toskana-vínunum. Þarna eru hins vegar líka kjöraðstæður fyrir hvítvínsþrúguna Vermentino. Hún er algeng á eyjunni Sardiníu en er líka ræktuð víða við vesturströnd Ítalíu (stundum undir heitinu Pigato) og í Provence í Frakklandi undir heitinu Rolle.

Vínið er mjög ljóst á lit, það er afskaplega ferskt, lime og limebörkur, sítróna, ferskjur, nokkuð míneralískt, mjög þurrt í munni, sýrumikið, skarpt, stórt, kröfugt. Ekta vín fyrir sjávarrétti að hætti Miðjarðarhafsins, t.d. franska Bouillabaisse-súpu eða humarpasta.

2.998 krónur. Frábær kaup.

Deila.