Grafin bleikja með sinnepssósu

Það munu hafa verið norrænir sjómenn sem byrjuðu að „grafa“ fisk á miðöldum með því að hjúpa fiskinn með kryddpækli og grafa í sandinn í flæðarmálinu. Grafinn lax er sígildur norrænn réttur en það má líka grafa fleiri fiska eins og til dæmis bleikju. Algengast er að nota dil, sykur og salt þegar lax er grafinn en það má líka nota fleiri krydd.

Í kryddblönduna fyrir bleikjuna þarf:

 • 1 dl sykur
 • 1/2 dl salt
 • 1 væn matskeið þurrkað dill
 • 1 tsk fennel
 • 1 stjörnuanis, mulin í morteli
 • 1/2 tsk hvítur pipar

Blandið kryddunum vel saman og setjið í fat. Skolið bleikjuflökin og þerrið. Leggið þau ofan á kryddblönduna og þekjið algjörlega með kryddblöndunni. Lokið fatinu með álpappír og geymið í ísskáp í a.m.k. tvær klukkustundir, gjarnan yfir nótt.

TIl að bera fram er bleikjan skorin í þunnar sneiðar og sett á disk ásamt sinnepssósunni. Gott er að hafa ristað brauð með.

Með bleikjunni er tilvalið að bera fram gott Chablis.

Sinnepssósa

 • 1 dós sýrður rjómi 18%
 • 1 msk rauðvínsedik
 • skvetta af góðri ólífuolíu
 • 1 msk fljótandi hunang
 • 1 msk púðursykur
 • 1,5 msk Dijon-sinnep
 • 1 tsk þurrkað dill
 • klípa af nýmyldum pipar og sjávarsalti

Setjið edik, olíu og púðursykur í skál og pískið með gaffli þar til að sykurinn er búinn að leysast upp. Hrærið sinnep, hunang og dill saman við. Blandið næst sýrða rjómanum saman við og hrærið vel saman. Bragðið til með salti og pipar. Geymið í ísskáp.

Deila.