Chile á lengdina

Chile er land sem teygir úr sér á lengdina meðfram vesturströnd Suður-Ameríku. Það eru vel á fimmta þúsund kílómetrar frá landamærum Chile og Perú við 17. breiddargráðu  suður að Hornhöfða við  56. breiddargráðu. Það er því engin leið að alhæfa um loftslag landsins og þarna er því að finna einstaklega fjölbreyttar aðstæður til vínræktar.

Hins vegar er það ekki fyrr en í seinni tíð sem að þessi fjölbreytileiki er byrjaður að endurspeglast í víngerðinni. Hin sígildu víngerðarsvæði landsins voru samþjöppuð á svæðunum Valle Central suður af höfuðborginni Santiago. Það eru ekkert afskaplega mörg ár síðan að djarfir víngerðarmenn fóru að sækja í hið svala svæði Casablanca norður af Santiago og í hæðirnar í Colchagua-dalnum sem teygir sig frá austri til vesturs.

Síðasta áratuginn hafa víngerðarmenn Chile legið yfir landakortunum og lagt undir sig stöðugt nýjar og spennandi lendur, frá Atacama í norðri til Itata og BioBio í suðri. Bestu vínin koma nú oft frá svæðum sem enginn vissi af fyrir 10-15 árum.

Staðalímynd chilenskra vína er hins vegar sú að þau séu öll mjög svipuð, hreinn, tær og sólríkur ávöxtur á afskaplega hagstæðu veðri.

Eitt af vínhúsunum sem að vinnur í því að breyta staðalímyndinni og opna augu umheimsins fyrir þeim fjölbreytileika sem að Chile getur boðið upp á er Casa Lapostolle, sem er í eigu frönsku Marnier-Lapostolle fjölskyldunnar (þekktust fyrir líkjörinn Grand Marnier) og hefur nýtt sér þekkingu og reynsla Michel Rollands, eins þekktasta vínráðgjafa og víngerðarmanns Bordeaux.

Eitt af gæluverkefnum fyrirtækisins hefur verið að sýna fram á þennan fjölbreytileika með því að draga fram tvær þrúgur, annars vegar Syrah og hins vegar Carmenere. Á sex ekrum frá Elqui nyrst í Chile til Apalta í Colchagua-dalnum í suðri er framleidd tunna af víni úr Syrah sem að dregur fram svæðisbundin einkenni og hvernig þrúguan sýnir mismunandi andlit sýn allt eftir aðstæðum. Í Colchagua-dalnum eru með sama hætti framleidd vín úr Carmenere á sex mismunandi stöðum, allt frá Kyrrahafinu í vestri til svæðanna nær Andes-fjöllum í austri.

lapostolle

Ég átti þess kost að smakka Syrah-vínin sex með Ronald Fernand Janssen frá Marnier-Lapostolle nú í vikunni og það var magnað að sjá hversu ólík þau voru. Samt er sami „klóninn“ af Syrah notaður á öllum stöðum og víngerðarmaðurinn (eða réttara sagt konan) er sá sami. Fyrsta vínið frá Elqui dalnum nyrst í Chile var það léttasta, mjög piprað í nefi sjarmerandi og þægilegt. Allt annar karakter í Casablanca-víninu, þar er „Miðjarðarhafsloftslag“, rauður ávöxtur í nefi og „köttur“ eins og maður rekst stundum á í góðum Sauvignon Blanc, ferskt, kvenlegt. Vínið frá San Antonio-dalnum þar sem Kyrrahafið hefur mikil áhrif á loftslagið dökkt, aftur piprað, kryddað, kröftugt. Og þá var komið að Pirque í Maipo og þar voru Maipo-einkennin greinileg, áberandi mynta og ekvalyptus í nefi svört þroskuð ber, vínið heitt, tannískt. Síðasta vínið loks Syrah frá San Jose Apalta í Colchagua-dalnum þar sem er þurrt Miðjarðarhafsloftslag, svolítið lokað í nefi mjög „franskt“ í stílnum, örlítið viognier í blöndunni, afskaplega elegant og langt.

Það er ekki mikið framleitt af þessum vínum, ein tunna af hverju eins og áður sagði eða að meðaltali um 350 flöskur. Þær eru fyrst og fremst notaðar í smakkanir en lítið magn af framleiðslunni er einnig selt og þá í pakka með einni flösku af hverju. Þau eru ekki til á Íslandi sem stendur en það gæti breyst síðar á þessu ári segir Janssen.

Deila.