Geggjaðar eggja- og beikonmúffur

Egg og beikon eru ein af þessum fullkomnu samsetningum sem finna má á nær öllum betri morgunverðarhlaðborðum. Við rákumst á þessa hugmynd í sænsku matartímariti og ákváðum að útfæra hana aðeins. Þarna eru í raun komnar hinar fullkomnu „múffur“ fyrir morgunverðinn eða brönsinn.

Best er að nota kökuform fyrir múffur og fyrsta skrefið er að smyrja botninn vel. Þá eru skornar út litlar skífur af brauði og þær settar í smurð formin.

Steikið næst beikon. Það þarf um það bil tvær sneiðar af beikoni í hvert form, nema sneiðarnar séu þeim mun stærri. Ekki fullsteikja beikonið, það er nóg að léttsteikja það í um mínútu, það á að vera mjúkt, alls ekki stökkt. Takið síðan beikonsneiðarnar og komið þeim fyrir innan í forminu. Þær eiga að mynda hringinn í kringum  „múffuna“ og hringurinn á að ná aðeins upp fyrir formið.

Þá er komið að ostinum. Rífið niður einhvern góðan ost, t.d. Búra og setjið ofan á brauðið í forminu.

Næst eru það eggin. Brjótið eitt egg í hvert form. Kryddið loks með t.d. þurrkuðu rósmarín og óreganó.

Setjð kökuformið með múffunum inn í ofn og eldið við 200 gráður í 20-25 mínútur.

Fleiri uppskriftir fyrir brönsinn finnið þið svo með því að smella hér.

Deila.