Matur og drykkur við Grandagarð

Hafnarsvæðið í Reykjavík er að verða eitthvað mest lifandi svæðið í borginni þegar kemur að veitingahúsum. Ein nýjasta viðbótin er Matur og drykkur, staður Gísla Matthíasar Auðunssonar sem á undanförnum árum hefur vakið mikla athygli fyrir sumarveitingastaðinn Slippinn í Vestmannaeyjum.

Mat og drykk er að finna í gamla Alliance-húsinu á Grandagarði,  þar var lengi rekin fiskvinnsla og á veggjum er rakin sú saga.  Umhverfið er einfalt og það er flottur bistro-fílingur yfir staðnum. Rétt eins og Slippurinn leggur Matur og drykkur áherslu á íslenskan mat og þarna má finna ýmislegt sem ekki prýðir matseðla hinna hefðbundnu veitingastaða, t.d. gellur, plokkfisk og harðfisk. Útfærslurnar eru þó nútímalegar stundum jafnvel þannig að hið upprunalega er í hálfgerðum felum, eins og plokkfiskurinn, sem er umlukinn stökku, þunnu rúgbrauðskexi og rófum. Kræklingurinn unaðslegur – eiginlega fullkominn í mildu soði. Djúpsteiktar kartöflur eins konar íslensk útgáfa af hinum spænsku Patatas Bravas. Vínlistinn alveg hreint prýðilegur og vel valinn, verði stillt í hóf.

Deila.