Fylltar paprikur eru réttur sem er vinsæll hjá öllum kynslóðum. Þetta er sígild fylling með hakki og hrísgrjónum sem að við gerum bragðmeiri með tómatasósu, kryddjurtum og parmesanosti.
Byrjið á því að gera tómatasósuna:
- 1 dós tómatar
- 1 laukur saxaður
- 2 vænir hvítlauksgeirar
- nokkur basilblöð
- óreganó, ferskt eða þurrkað
- skvetta af hvítvíni ef þið eigið það til
Mýkið lauk og hvítlauk í olíu íu á pönnu. Bætið tómötunum út á pönnuna og leyfið þeim að malla í smástund ásamt skvettu af hvítvíni. Bætið kryddjurtunum saman við. Látið malla áfram þar til að tómatarnir maukast þegar ýtt er á þá með skeið.
Fyllingin:
- 2 dl hrísgrjón
- 500 g nautahakk
- 1 laukur saxaður
- 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 1 paprika, söxuð
- 1 búnt steinselja, söxuð fínt
- 1 lúka rifinn parmesanostur
- 1/3 Fetakubbur, skorinn í litla teninga
- 1 dl af tómatasósunni
- salt og pipar
Setjið 2 dl af hrísgrjónum í pott og sjóðið.
Hitið olíu á pönnu og mýkið lauk, hvítlauk og papriku. Bætið kjötinu út á, hækkið hitann aðeins og brúnið í 5 mínútur eða svo. Bætið nú steinseljunni út á og hrærið vel saman. Bætið næst tómatasósunni saman við og hrísgrjónunum. Takið af hitanum og hrærið parmesanostinum og fetaostinum saman við. Bragðið til með salti og pipar.
Skerið paprikur í tvennt og hreinsið fræ og ljósa ávaxtakjötið innan úr þeim. Setjið afganginn af tómatasósunni í fat. Fyllið paprikurnar vel af kjötblöndunni og raðið ofan í fatið.
Setjið álpappír ofan á fatið og eldið í 45 mínútur í 200 gráðu heitum ofni. Takið álpappírinn af og eldið í 30 mínútur til viðbótar.
Fleiri uppskriftir með papriku finnið þið með því að smella hér.