Valtravieso – hátt upp í hæðum Ribera

Mörg af bestu rauðvínum Spánar koma frá vínhéraðinu Ribera del Duero skammt frá borginni Valladolid. Héraðið liggur hátt yfir sjávarmáli en ekkert vínhús er þó hærra en Valtravieso sem trónir yfir héraðið í 900 metra hæð yfir sjávarmáli. Ribera er ekki stórt hérað, það er um 150×35 kílómetrar að stærð og vínviður er ræktaður á samtals um 20 þúsund hektörum.

Héraðið skiptist í þrjú óopinber undirsvæði, Burgos, sem er það stærsta, Valladolid og Soria. Þekktustu vínhúsin eru öll í nokkurri hæð eins og Valtravieso.Þegar leitað er að vínhúsinu læðist óhjákvæmilega sú hugsun að manni að maður sé týndur. Enginn vínviður er sjáanlegur þarna uppi á sléttunni, einungis eitt og eitt tré á stangli. En síðan birtist búgarðurinn og ekrurnar eins og vin í eyðimörkinni og maður getur andað léttar.

 

Valtravieso er ekki gamalt vínhús frekar en flest önnur í Ribera. Þarna var hestabúgarður og árið 1985 fór eigandi búgarðsins að gróðursetja vínvið í tilraunaskyni. Fyrsta vínið var framleitt árið 1994 og þótti bara ansi hreint ágætt. Eigandinn lenti hins vegar í fjárhagslegum kröggum og þurfti að selja eignina en kaupendurnir voru Gonzalez Betere-fjölskyldan frá Madrid. Fyrir henni fór Pablo Gonzales Betere, sem síðan hefur verið forstjóri Valtravieso. Fjölskyldan hafði verið í margvíslegum rekstri, m.a. verið umsvifamikil í rekstri bakaría í Madrid. Pablo ákvað hins vegar að draga fjölskylduna út úr þeim geira og fjárfesta þess í stað í vínrækt í Ribera.

Vínhúsið framleiðir í dag um 500 þúsund flöskur á ári og ræktar vínvið á um 60 hektörum auk þess að kaupa þrúgur af vínbændum sem langtímasamningar hafa verið gerðir við af um 25 hektörum.

Miklar breytingar hafa orðið á spænska vínmarkaðinum á síðustu árum í kjölfar efnahagskreppunnar 2008. Verulega hefur dregið úr kaupum á ´vinum á veitingahúsum og salan færst inn í verslanir þess í stað. Sömuleiðis er minna keypt af dýrari vínum en áður og hefur framlegð því dregist töluvert saman.

 

Valtravieso hefur lengst selt megnið af framleiðslunni, allt að 90% á spænska markaðnum en Pablo segist hafa stefnt að því um nokkuð skeið að auka hlutdeild útflutnings. Nokkur vatnaskil urðu árið 2011 þegar að hann hóf samstarf við franska víngerðarmanninn Michel Rolland. Hann segir þetta samstarf hafa leitt af sér hugarfarsbreytingu sem að lokum olli því að nýr og yngri víngerðarmaður, sem hafði unnið í tvö ár með Rolland í Bordeaux í Frakklandi,  tók við víngerðinni. Markmiðið var að leggja meiri áherslu á ávöxtinn í víninu (minni á eikina) og gera vínin nútímalegri. „Ein af meginbreytingunum er að áður vorum við mjög upptekin af efnagreiningum í víngerðinni. Nú leggjum við mun meiri áherslu á að smakka og meta,“ segir Pablo. Stíll vínanna er orðinn ferskari, fágaðri.

Vínlína Valtravíeso byrjar í víninu „Roble“ eða „Oak Aged“ eftir því hvort það fer til Spánar eða útlanda. Þetta er það vín sem mest er framleitt af og einkennist af yndislegum, mildum ávexti. Næst kemur Crianza-vínið, töluvert meira um sig, þar er líka komið 5% af Cabernet í blönduna. Næst er Reservan, við smökkuðum 2010, sem er enn mjög ungt, tannískt, kryddað og voldugt og síðan koma toppvínin tvö, Tinta Fina og Vendemmia Seleccionada. Svakaleg vín sem þurfa all nokkurn tíma.

 

Deila.