Toppurinn í Navarra

Hvað dettur okkur í hug þegar að við heyrum minnst á spænska héraðið Navarra? Liklega hafa flestir séð myndir frá San Fermin hátíðarhöldunum í Pamplona þar sem mannýgum nautum er hleypt út á göturnar í júlímánuði og elta þá sem þora að hlaupa um þröng stræti borgarinnar. Einhverjir kunna líka að hafa lesið frásagnir Hemingways og sumir jafnvel þekkja vínin þótt þau hafi aldrei orðið jafnþekkt og þau frá nágrannahéraðinu Rioja.

Víngerðin er fyrst og fremst bundin við suðurhluta Navarra, sem er beint í austur af Rioja og teygir sig frá Pýrenea-fjöllunum í austri niður að Ebro-dalnum. Þrátt fyrir að það sé ekki langt frá hjarta Rioja að hjarta víngerðarinnar í Navarra eru aðstæður töluvert ólíkar. Navarra er miklu þurrara svæði og hrjóstugra. Það þurrt og hrjóstrugt raunar að þarna skammt frá vínræktarsvæðunum var á sínum tíma vinsælt að taka upp spaghetti-vestra en sá afkimi kvikmyndasögunnar naut mikilla vinsælda á áttunda áratug síðasta aldar. Þá er þetta eitt af svæðunum sem notað verður í myndatökur í nýjustu þáttaröð Game of Thrones.

Vínrækt er hægt að rekja tæp tvö þúsund ár aftur í tímann og líkt og víðar voru það Rómverjar sem að fyrst byrjuðu að rækta vínvið á þessum slóðum. Vínrækt hefur löngum verið héraðinu mikilvæg og vínin nutu til dæmis mikilla vinsælda meðal pílagríma á leiðinni um Jakobsveginn. Þegar komið var fram á nítjándu öld var vínræktin mikilvægasta búgrein Navarra en þá skullu á margvíslegar plágur, ekki síst rótarlúsin illræmda sem þurrkaði út vínræktina líkt og víðast annars staðar í Evrópu. Hún byggðist þó hægt og rólega upp aftur á síðustu öld en það er ekki fyrr en á síðustu tveimur áratugum eða svo sem að vínbændur í Navarra eru farnir að leggja áherslu á framleiðslu gæðavína sem tappað er á flöskur í stað þess að framleiða magnvín sem seld eru í tankatali.

Það háði líka héraðinu að þarna var ekker hágæðavínhús sem gat dregið vagninn og orðið táknmynd svæðisins. Úr því vildi spænski kvikmyndaframleiðandinn Iñaki Nuñez bæta þegar að hann festi kaup á landareigninni La Finca Bolandin syðst í Navarra um síðustu aldamót. Þar er nú ræktað vín á tæpum 140 hektörum á samfelldri landareign í Chateau-stíl. Í Chateau-inu sjálfu er starfrækt glæsilegt hótel og háklassa veitingahús en það er víngerðin sem er hjartað í búgarðinum.

Pago de Cirsus er eitt af örfáum vínhúsum sem að kemst í efsta flokk spænska vínflokkunarkerfisins eða D.O. Pago, sem er eins konar Grand Cru-kerfi er var sett á laggirnar með lagasetningu árið 2003. Tæplega tuttugu spænsk vínhús hafa komist í þennan flokk er Pago de Cirsus nú að bætast í hóp þeirra.

Vínin frá Pago de Cirsus hafa frá upphafi verið í fremsta flokki Navarra-vína og mikill metnaður er lagður í bæði víngerðina og vínræktina og allri mögulegri tækni beitt til að fylgjast sem best með hverjum einasta skika innan landareignarinnar, skilgreina jarðfræði og bregðast við loftslagi. Áveitukerfi breytir hinu þurra landslagi í græna vin. Vínin fara fyrst og fremst í útflutning (70%), þau eru stílhrein og eikinni er beitt með léttari hætti en víðast annars staðar á Spáni. Ekkert vína hússin fær lengri tíma en 12 mánuði í eik og tunnukjallarinn því óvenjulega lítill fyrir vínhús af þessari stærðargráðu.

Þetta eru afskaplega sjarmerandi og flott vín, ekki síst hefur Chardonnay-vínið heillað okkur fyrir tærleika sinn, skerpu og unaðslegan ávöxt. Rauðvínið Vendemmia Seleccionada er ekki síður heillandi, ávaxtarík blanda úr Tempranillo, Merlot og Syrah. Toppvínin Seleccion della Familia og Opus eru síðan öflugt og djúp, mjög krydduð en jafnframt fínlega. Þarna líkt og í svo mörgum öðrum víngerðum sem heimsóttar hafa verið á Spáni upp á síðkastið er það kona sem ræður ríkjum í víngerðarhúsinu.

 

Deila.