Grillaður þorskur með kartöflu- og baunastöppu og gremolata

Þorskur er einhver besti fiskur sem hægt er að fá og það jafnast enginn þorskur á við þann íslenska. Þorskinn má að sjálfsögðu elda á grillinu og hér berum við hann fram með stöppu eða „mús“ úr kartöflum og grænum baunum og ítölsku „gremolata“.

Fyrir fjóra þarf um 800 gramma hnakkastykki. Veltið því upp úr ólífuolíu, kryddið með góðu sjávarsalti og nýmuldum pipar. Grillið um 2-3 mínútur á hvorri hlið, þorskurinn þarf ekki langan tíma á grillinu hnakkastykkin geta auðvitað verið mjög mismunandi að þykkt. Það er gott að hafa álpappír undir þegar að fiskurinn er grillaður.

Með þessu er frábært að hafa stöppu úr kartöflum og grænum baunum. Þær er því miður ekki hægt að fá ferskar en það er ekkert að því að nota góðar frosnar baunir.

  • 400 g kartöflur
  • 300 g grænar baunir
  • 1 dl mjólk
  • 1 væn matskeið af smjöri
  • salt og pipar

Sjóðið kartöflurnar. Flysjið og stappið. Maukið baunirnar í matvinnsluvél. Það er ágætt að gera það á meðan það er enn smá frost í þeim. Blandið smjöri og mjólk saman við kartöflumúsina, Hrærið maukuðum baununum saman við. Bragðið til með salti og pipar.

Gremolata er einföld blanda af steinselju, hvítlauk og sítronu sem Ítalir nota með ýmsu. Það er til dæmis algjör klassík að hafa gremolata með „osso buco“ en það passar jafnvel með fiskinum og skönkunum. Gremolata gert með eftirfarandi hætti:

  • 4 msk af fínt saxaðri flatlaufa steinselju
  • fínt rifinn börkur af einni sítrónu
  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

Blandið saman í skál, saltið og piprið.

Setjið kartöflu- og baunastöppuna á disk. Bita af þorskinum yfir og síðan gremolata. Hellið gjarnan mjög góðri ólífuolíu yfir.

Með þessu má alveg hafa virkilega gott hvítvín á borð við Premer Cru Chablis svo sem Vau de Vey frá Domaine de Malandes. 

Deila.